Lausum störfum fjölgar

Störfum hefur fjölgað.
Störfum hefur fjölgað. mbl.is/​Hari

Afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafa komið mest fram á vinnumarkaðnum, fyrst og fremst í auknu atvinnuleysi, en einnig í minni atvinnuþátttöku og styttri vinnutíma. Sé litið á fjölda starfa á öllum vinnumarkaðnum á síðustu árum var fjöldi starfa mestur á 3. ársfjórðungi 2019, um 226 þúsund störf. Á fyrri hluta þessa árs voru störf aftur á móti um 183 þúsund, eða u.þ.b. 80% af því sem mest var. 

Fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans að þróun starfa hafi verið mismunandi í einstökum atvinnugreinum á síðustu árum. Mikil fækkun starfa í opinberri stjórnsýslu 2019-2020 veki athygli, en hún komi til vegna breytinga á flokkun sumra opinberra fyrirtækja og fyrirtækja sem flutt voru úr opinberri þjónustu yfir í einkageirann. 

Fækkun starfa á síðustu árum hefur verið mest í verslun og veitinga- og gististöðum, sem og ferðaþjónustu. Störfum hefur fjölgað í byggingarstarfsemi, en bæði fjármála- og vátryggingarstarfsemi og sjávarútvegur hafa verið nokkuð stöðug. 

Lausum störfum á vinnumarkaðnum fækkaði nokkuð í lok árs 2019 og staðan hefur verið tiltölulega óbreytt allt fram á þetta ár, þegar störfuð fjölgaði nokkuð á 1. ársfjórðungi áður en veruleg fjölgun varð á 2. ársfjórðungi þessa árs þegar um 7.600 störf voru í boði og hafði fjöldi þeirra tvöfaldast frá fyrri ársfjórðungi. 

Á þessu ári hafa flest störf orðið til í verslun, veitinga- og gististöðum og í ferðaþjónustu. Þá hefur lausum störfum fjölgað verulega í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og nokkur fjölgun hefur orðið í opinberri þjónustu. 

Mönnun reynst erfið víða á Vesturlöndum 

Talað hefur verið um að erfitt hafi verið að manna störf eftir að hagkerfið tók við sér aftur samhliða góðu gengi bólusetninga. Hafa þessar raddir einkum heyrst úr ferðaþjónustu, en staðan hefur verið svipuð víða á Vesturlöndum. Fram kemur í Hagsjánni að staða launafólks hafi styrkst, t.d. í Bretlandi og Bandaríkjunum, og að fyrirtæki hafi þurft að bjóða betur en áður til þess að fá fólk til baka í þau störf sem í boði eru. 

Tilboð í kringum ráðningar hafa einnig batnað til muna og hafa t.d. heyrst fregnir af því að tiltölulega margir Bandaríkjamenn hafi í hyggju að segja upp starfi sínu og leita á önnur mið þar sem kjör eru betri. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK