Sviptingar í ráðningum hjá flugfélaginu Play

52 flugliðar eru í fullu starfi hjá Play í dag …
52 flugliðar eru í fullu starfi hjá Play í dag en þar af eru 16 fastráðnir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugmönnum og flugliðum flugfélagsins Play hefur verið boðið að taka á sig allt að 50% lækkun á starfshlutfalli gegn því að fá fastráðningu í vetur en þessi hugmynd var rædd á fjarfundi sem stjórnendur Play héldu með starfsmönnum félagsins á miðvikudag sl. Heimildir Morgunblaðsins herma að hljóðið í flugmönnum sé þungt eftir fundinn.

Hugmyndin að breytingunum kom ekki frá stjórnendum, að sögn Birgis Jónssonar, forstjóra Play. „Ég var nú reyndar ekki á fundinum sjálfur en það er mikilvægt að árétta að þessi hugmynd kemur ekki frá stjórninni heldur vaknar hún hjá hópnum.“

Þá segir hann starfsmenn ekki hafa verið tilneydda til að lækka starfshlutfall sitt heldur sé með þessu boði verið að reyna að tryggja að fleiri starfsmenn fái fastráðningu í vetur og forða þannig fólki frá því að lenda í atvinnuleysi.

„Í stað þess að þeir sem eru bara með ráðningarsamning út sumarið myndu detta út í haust og koma svo kannski aftur inn í vor var sú hugmynd lögð fram að þeir starfsmenn sem gætu og vildu, tækju á sig lækkun á starfshlutfalli.“

Play er þó langt frá því að draga saman segl sín enda hyggst flugfélagið sækja á Bandaríkjamarkað eftir áramót og mun þá þurfa allan tiltækan mannskap til að mæta aukinni eftirspurn, að sögn Birgis.

„Allt sem við erum að gera núna er bara upphitun fyrir næsta vor og erum við að þjálfa áhöfnina fyrir Bandaríkin,“ segir hann. „Fólk vissi það alveg þegar það byrjaði hjá okkur í sumar að við þurfum að vera fleiri á næstu mánuðum en flugáætlunin gerir ráð fyrir eins og hún er núna.“

52 flugliðar eru í fullu starfi hjá Play í dag en þar af eru 16 fastráðnir.

Flugmenn Play eru 26 samtals og eru þeir allir fastráðnir í fullu starfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK