SA hefðu viljað bíða með hækkun stýrivaxta

Samtök atvinnulífsins segja að stýrivaxtahækkun hafi komið mörgum í opna …
Samtök atvinnulífsins segja að stýrivaxtahækkun hafi komið mörgum í opna skjöldu. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Frekar hefði átt að bíða með hækkun stýrivaxta þar til dregið hefði frekar úr óvissunni um framvindu kórónuveirufaraldursins, að mati forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), Önnu Hrefnu Ingimundardóttir. 

Stýrivextir seðlabankans voru hækkaðir í dag um 0,25% og standa því nú í 1,25%, sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir samt sem áður „sögulegt lágmark“.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Rök Ásgeirs illskiljanleg

Hún segir við mbl.is að rök Ásgeirs fyrir peningastefnunefndarinnar séu ekki mjög sannfærandi. Ásgeir sagði á blaðamannafundi í morgun þar sem ákvörðun peningastefnunefndar seðlabankans var kynnt, að meginmarkmið vaxtahækkunar væri að bregðast skjótt við og kæla niður hagkerfi á þeim óvissutímum sem uppi eru. 

„Það eru skiptar skoðanir um nauðsyn þessarar vaxtahækkunar að svo stöddu. Það hefur átt sér stað ákveðið bakslag í sóttvörnum, það voru auðvitað flestir sem vonuðust til þess að engar sóttvarnaaðgerðir yrðu í gildi núna og það á eftir að koma í ljós hvernig staða faraldursins hafi áhrif á komu ferðamanna og einkaneyslu innalands. Þannig ég held að það hafi komið mörgum á óvart að vextir hafi verið hækkaðir nú,“ segir Anna Hrefna. 

Merkir ekki ofhitnun í hagkerfinu

Hún segir einnig að SA hafi áhyggjur af því að verið sé að slökkva í þeim glæðum sem voru þó teknar að birtast í fjárfestingum hér á landi. Útlán til fyrirtækja hafi ekki verið að aukast. Hún segir erfitt að merkja þá hitnun hagkerfisins sem seðlabankastjóri virðist vísa í. 

„Ég tek undir gagnrýni þeirra sem segjast sjá takmarkaðar vísbendingar um að efnahagsbatinn sé að fara af stað af fullum krafti. Atvinnuleysi hefur ef til vill minnkað hraðar en gert var ráð fyrir, en það er enn mikið, og á sama tíma er mikil óvissa um framvinduna. Þannig erum við enn í mjög viðkvæmri stöðu,“ segir Anna Hrefna og bætir við:

„Það er erfitt að segja að það sé einhver ofhitnun að fara að eiga sér stað í hagkerfinu. Við erum enn að vinna okkur upp eftir mikinn samdrátt þannig að maður hefði talið eðlilegra í ljósi aukinnar óvissu í sóttvörnum að bíða aðeins með þessa vaxtahækkun.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK