Play fer úr þremur vélum í sex næsta vor

Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélagið Play hefur tryggt sér afnot af sex nýjum flugvélum, þar af tvær sem koma til landsins næsta vor og fjórar vorið 2023.

Þar að auki er vonast til þess að ein vél bætist við þær sem væntanlegar eru næsta vor og verða því vélar félagsins vonandi orðnar sex alls eftir aðeins örfáa mánuði. 

Það yrði þá um sama leyti og félagið hefur sig til flugs vestur um haf til Bandaríkjanna.

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í samtali við mbl.is. 

„Þetta eru nýjar vélar, koma bara beint úr kassanum,“ segir Birgir. Hann bætir við að vélarnar séu sniðnar að stakki Play, sem sé einstaklega ánægjulegt. 

„Þetta virkar í raun og veru þannig að við erum að leigja þær í 10-12 ár. Og af því þær eru í framleiðslu núna hjá Airbus þá getum við bara sagt nákvæmlega hvernig við viljum hafa þær, hvaða búnað við viljum hafa.“

Greiddu um 25% lægra verð

Birgir segir að vélarnar kosti hver um sig ríflega 10 milljónir dollara en leigusamningarnir sem Play gerir við Airbus, framleiðanda vélanna, eru um 30-40 milljón dollara virði hver. Þá segir hann að sé einstaklega ánægjulegt að Play sé að fá vélarnar til sín á um 25% lægra virði en markaðsvirði var fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. 

Þannig takist í raun að gera framtíðarhagræðingu, eins og Birgir segir sjálfur. 

„Við fórum í þetta útboð og söfnum um 100 milljónum dollara og getum í raun notað þann styrk til þess að leigja vélarnar langt fram í tímann á þessum kjörum og við náum markaðnum þarna bara í miðri niðursveiflu.“

Vélar Play eru af gerðinni Airbus A321neo.
Vélar Play eru af gerðinni Airbus A321neo. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fljúga ekki of nálægt sólu með Bandaríkjaflugi

Frá stofnun hefur flugfélagið Play sagst ætla að beita yfirvegun og hógværð í sínum rekstri, enda er íslenskur flugrekstur enn illa brenndur eftir Íkarosar-fall WOW-Air árið 2018. Þess vegna var Birgir spurður að því hvort ekki væri verið að fara of geyst í tilkynningar um fyrirhuguð Bandaríkjaflug. 

„Þegar nýir hluthafar komu núna inn í apríl þá sáum við svona fyrir endann á faraldrinum á Íslandi, eða töldum okkur gera það hið minnsta. Þá vorum við í raun svolítið gagnrýnd fyrir að fara of hægt, af því tæknilega séð hefðum við alveg getað byrjað að fljúga til Bandaríkjanna núna í haust og upphaflegar áætlanir Play gerðu ráð fyrir að við myndum gera það,“ segir Birgir og bætir við:

„En þegar ég kom inn og hluthafarnir núna þá hægðum við á þeim plönum fram á næsta vor og það snýst eiginlega bara það um að við vildum koma okkur fyrir með tilliti til „sölu-canala“ og almennt vildum við koma okkur fyrir á markaðnum. Við erum að bæta núna við þremur vélum og förum úr þremur þá í sex alls – það er mjög „kontrólerað“ skref og ég held að við séum að gera þetta á eins yfirvegaðan máta og hægt er.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK