Milljónir sjá nú vörurnar

Verð hlutabréfa í NetApp tók mikið stökk þegar samningurinn við …
Verð hlutabréfa í NetApp tók mikið stökk þegar samningurinn við AWS var tilkynntur. mbl.is/Unnur Karen

Jón Þorgrímur Stefánsson, forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins NetApp á Íslandi og tæknistjóri samstæðunnar á heimsvísu, segir að nýr samningur félagsins við skýjaþjónustuna Amazon Web Services, AWS, marki tímamót. Jón hefur unnið að samningsgerðinni í tvö ár. Um er að ræða stærsta samning í sögu NetApp. „Það var mikið fagnað þegar þetta var tilkynnt á dögunum,“ segir Jón í samtali við ViðskiptaMoggann.

Þriðji aðili í fyrsta skipti

Jón segir að AWS sé með samningnum í fyrsta skipti að hleypa þriðja aðila inn í skýið með þessum hætti og selja sem sína eigin lausn. „AWS er stærsta skýjaþjónustan í heiminum, næst á undan Azure, skýjaþjónustu Microsoft, og Google. Nú verður okkar hugbúnaður, sem sér um stýringu á gagnageymslum í skýinu, seldur sem Amazon-vara og verður sýnilegur viðskiptavinum Amazon um allan heim,“ segir Jón.

Hann segir að samningurinn sé sérstaklega ánægjulegur því að með kaupum Fortune 500-fyrirtækisins NetApp á íslenska fyrirtækinu Greencloud árið 2017, fyrirtækinu sem Jón Þorgrímur gekk til liðs við árið 2014, hafi NetApp orðið mikilvirkara á sviði hugbúnaðar sem þjónustu (e. software as a service). Þróunin í þá átt hafi öll hafist með kaupunum á Greencloud. „Það er gaman að þetta hafi allt byrjað hjá okkur hér á Íslandi, maður er stoltur af því. Þessi samningur gerir að verkum að þær þrjár milljónir manna sem nýta sér þjónustu AWS á hverjum degi sjá okkar vörur sem hluta af vöruframboði AWS.

Jón Þorgrímur Stefánsson forstjóri á Íslandi og tæknistjóri samstæðunnar á …
Jón Þorgrímur Stefánsson forstjóri á Íslandi og tæknistjóri samstæðunnar á heimsvísu.

Þegar þetta var tilkynnt á dögunum tóku hlutabréfin í NetApp stökk. Samningurinn þýðir einnig að NetApp er hér með fyrsta fyrirtækið sem er með svona samning við alla risana þrjá í skýjalausnunum, það er Amazon, Microsoft og Google.“

152% verðhækkun hlutabréfa

Verð bréfa í NetApp er nú rúmlega 91 dalur á hlut, en í mars 2020 kostaði hver hlutur rúma 36 dali. Hækkunin er 152% á tæpu einu og hálfu ári.

Tekjur NetApp á fjárhagsárinu 2021 sem lauk í apríl síðastliðnum námu 5,74 milljörðum Bandaríkjadala, eða 731 milljarði íslenskra króna, en þær voru 5,41 milljarður dala 2020. Áframhaldandi vexti er spáð á næsta ári. Hjá íslenska útibúinu starfa 100 manns.

Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK