Evergrande skuldar 39 þúsund milljarða

Fólk á gangi fyrir framan höfuðstöðvar Evergrande í Shenzen í …
Fólk á gangi fyrir framan höfuðstöðvar Evergrande í Shenzen í Kína. AFP

Tryggvi Páll Hreinsson, sjóðsstjóri erlendra hlutabréfasjóða hjá sjóðastýringarfélaginu Stefni, segir að kínverska fasteignaþróunarfélagið Evergrande skuldi meira en 300 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 39 þúsund milljarða íslenskra króna.

Hann segir að aðalástæða mikilla lækkana á erlendum hlutabréfamörkuðum í gær sé yfirvofandi gjaldþrot félagsins. 

„Félagið hefur stefnt í gjaldþrot síðasta mánuðinn. Skuldabréf þess á erlendum mörkuðum skipta nú um hendur á 25 sent á hvern dollara. Félagið á að standa skil á vaxtagreiðslu á skuldabréfum hinn 23. september nk. sem ólíklegt er að það geti innt af hendi,“ segir Tryggvi.

70% bundin í fasteignum

Hann segir að um 70% af eignum kínverskra heimila séu bundin í fasteignum. Því geti yfirvofandi gjaldþrot haft þó nokkur áhrif á væntingar neytenda og einkaneyslu þar í landi. „Kínversk eftirspurn er gríðarlega mikilvæg fyrir marga hrávörumarkaði. Þetta sést bersýnilega á dögum eins og í dag [í gær] þar sem verð á hrávörum eins og stáli er í frjálsu falli enda er eftirspurn eftir stáli á heimsvísu mjög svo háð fasteignauppbyggingu í Kína.“

Tryggvi segir að ástandið hafi í gær smitast yfir á vestræna markaði af krafti, þó svo að þessi slæma staða hafi legið fyrir í töluverðan tíma. „Mörg vestræn fyrirtæki byggja sinn rekstur á sölu til Kína, þar sem vöxtur hefur verið gríðarlega mikill síðustu áratugi og mikilvægi Kína í heimshagkerfinu aukist verulega.“

Tryggvi segir að menn velti nú fyrir sér hver muni bera tjónið. Margir hafi búist við að kínverska ríkið myndi stíga inn og bjarga Evergrande, en fyrst það hafi enn ekki gerst sé ólíklegt að ríkið muni aðhafast úr þessu.

Skellurinn mun að öllum líkindum einna helst falla á erlenda skuldabréfaeigendur og bankastofnanir í Kína að sögn Tryggva, en þó megi benda á að bankakerfið í Kína sé nánast alfarið í ríkiseigu. Því muni ríkið á endanum bera það tjón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK