Ekki sammála um áhrif nýju reglanna

Seðlabanki Íslands kynnti reglurnar í morgun.
Seðlabanki Íslands kynnti reglurnar í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Arion banki og Landsbankinn eru ekki að öllu leyti sammála um þau áhrif sem kunna að hljótast af reglunum sem Seðlabankinn kynnti í morgun, um hámark greiðslubyrðar fasteignalána.

Í svari upplýsingafulltrúa Arion banka, Haralds Guðna Eiðssonar, við fyrirspurn mbl.is segir að við fyrstu sýn sýnist bankanum sem þessar breytingar muni almennt ekki hafa mikil áhrif á möguleika fólks til að kaupa húsnæði.

„Þau takmörk sem kynnt voru eru ekki fjarri því verklagi sem bankinn viðhefur við greiðslumat vegna íbúðalána. Það er helst að þetta hafi einhver áhrif á fyrstu kaupendur og mögulega munu breytingarnar auka fjölda þeirra sem velja verðtryggð lán,“ segir í svari bankans.

Enn fremur er þar tekið fram að breytingarnar hafi engin áhrif á útistandandi lán, heldur aðeins ný lán.

Til þess fallin að hægja á verðhækkunum

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir þann banka aftur á móti meta það svo að reglurnar muni hafa lítil áhrif á getu fólks til að kaupa fyrstu eign, enda sé miðað við að greiðslubyrðarhlutfall geti verið allt að 40%.

Á hinn bóginn mun ákvörðun Seðlabankans takmarka að einhverju leyti möguleika fólks til að taka há lán til að kaupa mjög dýrar fasteignir.

Ákvörðun Seðlabankans er í svari Landsbankans einnig sögð, að öðru óbreyttu, til þess fallin að hægja á verðhækkunum á fasteignamarkaði.

Í langflestum tilfellum í samræmi við útlán undanfarið

Greint var frá því í morgun að greiðslu­byrðar­hlut­fall fast­eignalána skuli al­mennt tak­mark­ast við 35% en 40% fyr­ir fyrstu kaup­end­ur.

Eru þessi takmörk lægri, þ.e. meiri, en [Landsbankinn] hefur miðað við að undanförnu?

„Við höfum lengi miðað við að ef greiðslubyrði vegna íbúðalána fer yfir 30% af ráðstöfunartekjum, miðað við lánsumsókn, sýnum við sérstaka varúð og förum ítarlega yfir upplýsingar um greiðslubyrði og fjárhagslega stöðu lántakenda. Takmörk Seðlabankans, þ.e. 35% annars vegar og 40% fyrir fyrstu kaupendur hins vegar, eru í langflestum tilfellum í samræmi við okkar útlán undanfarið.“

Reglurnar hafi lítil áhrif á núverandi markað

Svo dæmi sé tekið, hversu hátt hlutfall útistandandi lána [Landsbankans] fellur undir þessi takmörk?

„Þegar fólk tekur íbúðalán hjá okkur eða endurfjármagnar fer það fyrst í gegnum greiðslumat. Við lánveitingu liggja því fyrir upplýsingar um greiðslubyrði. Á lánstímanum getum við ekki fylgst með hvernig greiðslubyrðin breytist.

Við vísum einnig til þess sem kemur fram í kynningu Seðlabankans í morgun um að reglur um hámark greiðslubyrðarhlutfalls hafa lítil áhrif á markaðinn við núverandi aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK