„Komnir til að sýkja alla af ást og hamingju“

Davíð Örn Símonarson og Ásgeir Vísir Jóhannsson, stofnendur Smitten.
Davíð Örn Símonarson og Ásgeir Vísir Jóhannsson, stofnendur Smitten. Ljósmynd/Aðsend

Nokkur þúsund Danir hafa nú skráð sig til leiks á stefnumótaforritinu Smitten en forritið var sett á danskan markað fyrir fjórum dögum. Davíð Örn Símonarson framkvæmdastjóri fyrirtækisins, kveðst spenntur að sjá hvernig útrásin mun ganga en fyrirtækið stefnir á að vera komið með fótfestu í öllum Norðurlöndunum fyrir áramót.

Davíð segir fyrstu dagana skipta sköpum þegar kemur að því að koma stefnumótaforriti á markað þar sem fyrstu notendurnir verða að geta treyst á að finna þar fjölda annarra notenda, annars gengur starfsemi forritsins ekki upp og nær ekki flugi. „Áskorunin er að fá fyrstu nokkur hundruð eða nokkur þúsund manns til að nota appið.“

Aðspurður kveðst hann ekki hafa of miklar áhyggjur af því að dönsk þýðing á nafni fyrirtækisins muni hafa neikvæð áhrif á markaðssetningu fyrirtækisins. „Smitten er alveg frábært nafn á öðrum mörkuðum, á ensku þýðir það að vera skotinn í einhverjum, en í Danmörku þýðir þetta að vera sýktur. Þetta getur fallið á báða vegu en við erum að vona að þetta muni skapa umtal. Við þurfum bara að taka því fagnandi og vinna með það,“ segir Davíð og hlær við.

Hann segir þó forritið hannað þannig að ekki komi að sök þó hópurinn sé fámennur til að byrja með. „Appið er þannig byggt að þú getur alltaf skoðað 30 manns í einu þannig við þurfum ekkert rosalega mikið af fólki, við þurfum bara nokkur hundruð manns í flestum aldurshópum þó við séum aðallega að horfa á yngri kynslóðina, 18 til 35 ára.“

Ört vaxandi fyrirtæki

Smitten, sem fagnaði í gær eins árs afmæli, hefur vaxið ört á stuttum tíma en starfsmannahópurinn hefur næstum fjórfaldast á nokkrum mánuðum, eða úr þremur starfsmönnum í 11, auk þeirra fimm sem eru í hlutastarfi.

Einhleypir Íslendingar kannast margir við að hafa nýtt sér þjónustu þessa ágæta forrits með misjöfnum árangri. Rúmlega 35 þúsund landsmenn hafa hlaðið niður forritinu og hafa orðið um 350 þúsund tengingar milli notenda frá upphafi.

Fyrr á árinu tryggði fyrirtækið sér tæplega 350 milljón króna fjármögnun til að stækka starfsemi sína frá danska sjóðnum byFounders, breska sjóðnum PROfounders og íslenska sjóðsins Brunnurs Ventures, og fleiri.

Starfshópur Smitten hefur næstum fjórfaldast á síðustu mánuðum.
Starfshópur Smitten hefur næstum fjórfaldast á síðustu mánuðum. Ljósmynd/Aðsend

„Við tókum inn tæplega 350 milljónir fyrr á árinu. Við ætluðum að nota það til þess að sýna og sanna að varan virki á öðrum mörkuðum en á Íslandi. [...] Við þurfum smám saman í haust að undirbúa að fara inn á nýja markaði en núna er verið að setja peninginn í markaðsstarfið í Danmörku.“

Davíð kveðst finna fyrir „fáránlegum“ áhuga frá fjárfestum utan frá en mun færri komust að en vildu í síðustu fjármögnunar lotu. Er nú á stefnuskránni að sýna fram á að varan virki á erlendum mörkuðum til að hægt sé að leggja af stað í aðra stóra fjármögnun um mitt næsta ár eða jafnvel fyrr. Er stefnan þá sett á Bandaríkjamarkað eða restina af Evrópu.

Áhrifavaldar mikilvægir fyrir markaðssetningu

Spurður hvaða leiðum fyrirtækið mun beita til að koma sér á framfæri, segir Davíð að Smitten muni fyrst og fremst vera auglýst af áhrifavöldum þar sem það hafi skilað þeim mesta árangrinum hingað til.

„Það sem hefur virkað hérna best heima á Íslandi er áhrifavalda markaðssetning og það er það sem við munum keyra á næstu mánuðina. Það hefur skilað okkur mikið af notendum. Svo verður það í bland við hefðbundnar auglýsingar.“

Eftir að markaðssetningin hefur skilað sínu er síðan mikilvægt að varan standi undir nafni, að sögn Davíðs, enda er útbreiðsla forritsins einnig háð því að notendur hafi góða reynslu og mæli með forritinu. Sjálfur hefur Davíð mikla trú á vörunni enda hafi það sýnt sig og sannað eftir að varan kom á íslenskan markað fyrir ári. „Við erum komnir til að sýkja alla af ást og hamingju, vonandi náum við að vinna með þessum meðbyr,“ segir Davíð að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK