Spáð 450 milljóna tapi hjá Strætó

Töluverð óvissa er um útkomu ársins á rekstri Strætó BS og gera nýjustu spár ráð fyrir 450 milljóna króna tapi á árinu. Er það sagt skýrast að mestu af lækkun farþegatekna um rúmar 200 milljónir og jafnframt að sérstakt Covid-framlag ríkisins vegna kórónuveirufaraldursins verði 120 milljónir, sem er í fundargerð stjórnar Strætó sagt vera 780 milljónum kr. lægra en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Á móti eiga hagræðingaraðgerðir að skila um 275 milljóna kr. lækkun rekstrarkostnaðar á árinu.

Væntingar um allt að 900 milljónir

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að útkomuspá fyrir yfirstandandi ár, þar sem spáð er tapi upp á 450 milljónir króna eins og fyrr segir, skýrist að mestu af lægra Covid-framlagi frá ríkinu upp á 780 milljónir króna.

„Tekjur eru lægri en í áætlun en gjöld eru einnig lægri en í áætlun. Það voru væntingar um allt að 900 [milljóna króna] framlag frá stjórnvöldum í ljósi þess að Strætó hélt sama þjónustustigi að mestu og fyrir faraldurinn, til að tryggja að lykilstarfsfólk kæmist í og úr vinnu og að hægt væri að tryggja fjarlægðarmörk í vögnum,“ segir hann.

Spurður um hagræðingaraðgerðir segir Jóhannes í svari til blaðsins að enn sé verið að vinna með áætlun fyrir árið 2022 og ekki búið að útfæra þær í smáatriðum.

Fjallað var um drög að fjárhags- og starfsáætlun Strætó fyrir árin 2022-2026 á stjórnarfundi í seinasta mánuði. Þar kom fram að gert er ráð fyrir að tekjur verði í samræmi við tekjuáætlun 2019.

„Launakostnaður hefur hækkað mikið sem skýrist af kjarasamningshækkunum og vinnutímastyttingu vaktavinnufólks sem áætlað er að kosti um 350 [milljónir króna] á ári,“ segir í fundargerð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK