Þurfi heildarendurskoðun á áfengislögum

Af svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Félags atvinnurekenda má ráða að …
Af svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Félags atvinnurekenda má ráða að netverslun með áfengi sé óheimil án lagabreytingar. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Félag atvinnurekanda, FA, segir í tilkynningu á vefsíðu sinni að dómsmálaráðuneytið hafi svarað fyrirspurn félagsins um lögmæti netverslunar með áfengi. Af svari ráðuneytisins megi ráða að það telji innlenda netverslun með áfengi óheimila án lagabreytingar. Smásalan sé nú eingöngu heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. 

Segir félagið þó að spurningum FA um önnur form netverslunar, þegar netverslanir, sem eru annaðhvort skráðar í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða í ríki utan Evrópu, afhenda vörur beint úr vöruhúsi á Íslandi, sé ekki svarað í bréfi ráðuneytisins.

Segir á vef FA að félagið hafi sent ráðuneytinu svarbréf þar sem ósk um svör við spurningum félagsins er ítrekuð og bent á mikilvægi fyrirsjáanleika og öryggis í viðskiptum. Þá segir í bréfi félagsins að það sé í samræmi við góða og vandaða stjórnsýsluhætti að stjórnvöld gefi út leiðbeiningar um gildi laga og hvernig borgararnir geti hagað sér innan ramma þeirra. 

Lögin ekki þróast í takt við samfélagslega þróun

Þá bendir félagið á að í bréfi ráðuneytisins segir að það sé mikilvægt að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis. Jafnframt að lögin hafi ekki þróast í takt við samfélagslega þróun, sérstaklega hvað varðar netverslun. 

Félag atvinnurekenda tekur undir í svarbréfi sínu og segist ítrekað hafa hvatt til heildarendurskoðunar á áfengislöggjöfinni og reiðubúið að taka þátt í slíkri heildarendurskoðun.

„FA hefur lagt áherslu á að samhliða breyttu sölufyrirkomulagi, þar sem einkaaðilum er leyft að selja áfengi í smásölu, verði bannið við áfengisauglýsingum afnumið, enda er það orðið orðin tóm og nær engan veginn tilgangi sínum. Um leið yrðu settar reglur um hvernig áfengisauglýsingar yrðu úr garði gerðar. FA hefur enn fremur lagt áherslu á að samhliða þessum breytingum yrði ákvæðum laga um innheimtu áfengisgjalds breytt,“ segir FA í tilkynningu. 

„Í ljósi hinnar óvissu stöðu á áfengismarkaðnum telur félagið brýnt að þessi vinna hefjist sem allra fyrst,“ segir í bréfi FA.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK