Kaupa vöruhús og geymsluhúsnæði fyrir 5 milljarða

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns. Ljósmynd/Baldur Kristjánsson

Kaldalón hf., félag sem skráð er á First North markaðinn í Kauphöllinni hefur fest kaup á þremur vöruhúsum fyrir samtals um fimm milljarða. Samhliða þessu hefur Kaldalón selt þróunarlóð sína við Steindórsreit.

Eignirnar sem um ræðir eru Suðurhraun 10 í Garðabæ, Íshella 1 í Hafnarfirði og Fiskislóð 23-25 í Reykjavík og eru samtals rúmlega 18 þúsund fermetrar að stærð.

Suðurhraun 10 er 7.075 fermetra vöruhús sem hýsir meðal annars vöruhús Ikea og Íshella er 7.700 fermetra vöru- og geymsluhúsnæði. Báðar eignirnar voru í eigu Eignabyggðar ehf. Heildarkaupverð eignanna er 3.780 milljónir, en yfirteknar skuldir eru 2.360 milljónir.

Kaldalón afhendir sem endurgjald meðal annars félagið U22 ehf., en það félag á meðal annars þróunarlóð við Steindórsreit í Reykjavík. Þar er leyfi til að byggja 7.600 fermetra íbúðarhúsnæði auk atvinnurýma. Áætlað virði þeirra eigna er 1.845 milljónir, eða 170-260 milljónir umfram bókfært virði. Mismunurinn verður gerður upp með tryggingabréfi.

Steindórsreiturinn við gatnamót Hringbrautar og Ánanausta.
Steindórsreiturinn við gatnamót Hringbrautar og Ánanausta.
Áform Kaldalóns um uppbyggingu á Steindórsreitnum gerðu ráð fyrir fjölda …
Áform Kaldalóns um uppbyggingu á Steindórsreitnum gerðu ráð fyrir fjölda íbúða. Plúsarkitektar

Fasteignin að Fiskislóð 23-25 hýsir starfsemi Geymslna, dótturfélags Securitas, og sýninguna Whales of Iceland. Eignin er samtals tæplega 3.500 fermetrar og er áætlað virði hennar 1.200 milljónir. Greiðsla fer fram með lántöku, reiðufé og útgáfu nýs hlutafjár í Kaldalóni upp á 200 milljónir.

Haft er eftir Jóni Þór Gunnarssyni, forstjóra Kaldalóns, í tilkynningu til Kauphallarinnar að með þessu stækki eignasafn félagsins töluvert. „Með kaupum á vöruhúsum og geymsluhúsnæði á lykilstaðsetningum á höfuðborgarsvæðinu erum við að tryggja okkur eignir sem verða sífellt verðmætari í breyttum heimi verslunar og þjónustu. Vöruhús eru nauðsynlegir innviðir þegar kemur að aukinni netverslun og heimsendingum. Hvað varðar sölu á Steindórsreitnum þá sýnir þetta enn og aftur að okkur er að takast að vinna afskaplega vel úr þróunarbanka félagsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK