Sektaður um þrjár milljónir fyrir teppaauglýsingar

Alan Talib og Cromwell Rugs teppin.
Alan Talib og Cromwell Rugs teppin.

Auglýsingar á Cromwell Rugs-teppum sem birtust í Morgunblaðinu fyrr í október eru að mati Neytendastofu villandi. Þetta kemur fram í stjórnvaldsákvörðun frá stofunni. 

Segir á vef Neytendastofu að henni hafi borist ábendingar um auglýsingar og markaðssetningu Cromwell Rugs á teppum. Í ábendingunum voru gerðar athugasemdir við kynnta verðlækkun þar sem fyrirtækið hafði ekki starfað hér á landi áður. 

Þannig auglýsti fyrirtækið að um rýmingarsölu á umræddum teppum væri að ræða. Til að mynda var auglýst teppi á til­boðsverðinu 119.500 krón­ur en áður hafði það kostað 569.500 krón­ur.

Segir á vef Neytendastofu að hún hafi farið fram á að Cromwell Rugs sannaði að auglýst teppi hafi verið boðin á tilgreindu fyrra verði áður en kynnt var verðlækkun. Þá fór Neytendastofa fram á að félagið sannaði fullyrðingar um ástæður verðlækkunarinnar.

Morgunblaðið/Óttar Geirsson

Engar sannanir borist

„Cromwell Rugs sendi Neytendastofu hlekki á erlendar fréttir til staðfestingar fullyrðingum í auglýsingum sínum en engin svör bárust til sönnunar á að verðlækkun væri raunveruleg,“ segir í tilkynningu Neytendastofu.

Segir í ákvörðuninni að merkingar á teppunum og í auglýsingum gefi til kynna að um verðlækkun sé að ræða en þar sem Cromwell Rugs sýndi ekki fram á að verðlækkun væri raunveruleg taldi Neytendastofa hana villandi. 

„Telur Neytendastofa að Cromwell Rugs hafi með þessari framsetningu á tilboðsmerkingum gefið rangar upplýsingar um verðhagræði og að ekki hafi verið um raunverulega verðlækkun að ræða. Enn fremur telur stofnunin að þessir viðskiptahættir séu til þess fallnir að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda,“ segir í stjórnvaldsákvörðuninni. 

Fram kemur að Neytendastofa telji brot Cromwell Rugs alvarlegt og til þess fallið að raska verulega fjárhagslegum hagsmunum neytenda auk þess að stríða gegn góðum viðskiptaháttum. Cromwell Rugs hefur því verið gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð þrjár milljónir króna.

Stjórnvaldsákvörðunina má í heild sinni lesa hér.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK