Íslenskt þorskroð fær markaðsleyfi í Bandaríkjunum

Nýja sáraroð Kerecis.
Nýja sáraroð Kerecis. Ljósmynd/Kerecis

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur veitt leyfi til notkunar á nýju sáraroði frá íslenska fyrirtækinu Kerecis. Roðið er ætlað til notkunar á stærri sár og í kjölfar skurðaðgerða. Þetta er fjórða varan frá Kerecis sem fær leyfi hjá FDA.

Sáraroð þetta er markaðssett undir nafninu Kerecis Omega3 SurgiBind og er það fyrsta frá Kerecis á sviði skurðlækninga. Kerecis sérhæfir sig í þróun sáraroða unnum úr þorski.

Leyfið fékkst veitt í gær.

Opnar nýja markaði

Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis segir leyfisveitinguna opna á nýja markaði fyrir félagið:

 „Við höfum verið að einblína á sár en nú opnast líka markaður fyrir skurðaðgerðir og áverka. Þetta er mjög breitt svið,“ segir Guðmundur. Roðið geto bæði nýst í bráðaskurðaðgerðum í kjölfar slysa og einnig í skurðaðgerðum þegar styrkja þarf innvortis sauma og þá til að styðja líkamann í endurhæfingarferlinu.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis. Ljósmynd/Kerecis

Áhuginn leynir ekki á sér að sögn Guðmundar, en nokkuð algengt hefur verið að læknar hafi notað roðið innvortis án þess að samþykki þeirrar ábendingar hafi legið fyrir. Leyfisveitingin sé því jákvætt skref í átt að víðtækari notkun. Hún er einnig til þess fallna að viðhalda sterkri tekjuaukningu fyrirtækisins.

Langstærstur hluti tekna komi frá Bandaríkjunum

Yfirgnæfandi hluti tekna Kerecis kemur frá Bandaríkjunum.

„Bandaríkjamarkaðurinn er lang framsæknastur þegar það kemur að nýrri tækni og nýjum vörum á líftæknimarkaðnum,“ segir Guðmundur en bendir þó á að Kerecis séu að ryðja sér til rúmsá þýskumælandi markaði og starfræki skrifstofur í Zuirich. „En 90% af tekjunum okkar koma frá Bandaríkjamarkaði,“ bætir Guðmundur við.

Helstu viðskiptavinir Kerecis í Bandaríkjunum eru nú sjúkrahús uppgjafahermanna, læknastofur, sáragöngudeildir spítala og skurðstofur. Vonir standa til þess að nýja varan mun auka umsvif Kerecis á síðastnefnda markaðnum.

Guðmundur segir að tekjur fyrirtækisins hafi aukist talsvert á síðasta ári meðal annars vegna heimsfaraldurs Covid-19: „Þá fjölgaði alvarlegum einkennum sykursýki sem eru m.a. sykursýkissár. Fólk hreyfði sig minna, var meira heima hjá sér og fór seinna til læknis. Eftirspurnin hefur aukist í faraldrinum og stórum sykursýkissárum fjölgað sem oft hafa í för með sér aflimanir. Þessi vara fellur vel inn í þá eftirspurn.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK