Mestu munar um minnkandi atvinnuleysi

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans kynnti nýja hagspá bankans í …
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans kynnti nýja hagspá bankans í Hörpu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Jákvæðasta þróunin sem er áþreifanleg fyrir almenning er hve hratt við sjáum draga úr atvinnuleysi, hraðar en við áttum von á. Við erum komin niður fyrir fimm prósent atvinnuleysi og við reiknum með að það haldi áfram að lækka það sem eftir er af ári,“ segir Daníel Svavarsson, aðalhagfræðingur Landsbankans, í samtali við mbl.is að kynningu nýrrar Hagsjár bankans lokinni. 

Daníel bætti við að laun og kaupmáttur launa sé einnig að aukast sem ekki hafi áður sést á krepputímum. „Vanalega hefur gegnið fallið og verðbólga rokið upp úr öllu valdi sem hefur þýtt að raunlaun hafi skerst.“

Daníel Svavarsson.
Daníel Svavarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verðbólgan þrálát

Landsbankinn spáir 5,1 prósent hagvexti í ár, 5,5% á næsta ári, 1,7% árið 2023 og 2% árið 2024 og líta flestir hagvísar vel út í spánni. 

Daníel segir að helstu áhyggjur þeirra sé að verðbólgan sé of há. „Hún hefur reynst þrálátari en við gerðum ráð fyrir. Þar hefur helsta vandamálið verið mikil hækkun á fasteignamarkaði. En þegar fram í sækir reiknum við með því að markaðir munu róast sem mun hjálpa því að verðbólgan róist sömuleiðis, en við spáum því að það muni taka nokkuð langan tíma fyrir verðbólguna að komast aftur niður í verðbólgumarkmið og við reiknum ekki með að það gerist fyrr en á þarnæsta ári, árið 2023.“

Horfi til leiguverðs í frekari mæli

Spurður hvort að tími sé kominn til að endurskoða hlut húsnæðisliðar inni í vísitölu neysluverðs miðað við að fæstir aðrir liðir séu að hækka í dag og verðbólga sé meira eða minna drifin áfram á hækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu bendir Daníel á að flest ríki séu með einhverskonar húsnæðislið inni í sínum verðbólgureikningum. 

„En venjulegar er þetta í formi leiguverðs. Leigumarkaður á Íslandi hefur í sögulegu samhengi verið frekar lítill og verðmyndunin ekki mjög skilvirk. Þannig að við erum með húsnæðisverð inni í verðbólgureikningum okkar í þeirri mynd að við reikum húsaleiguna. Við reiknum hvað kostar að búa í eigin húsnæði miðað við verðþróun, sem er pínulítið galið. Miðað við það að við erum að sjá leigumarkað vaxa og dafna og verða öflugan er kannski ástæða til að fara að huga að því að leiguverð vegi þyngra en verðmyndun á markaði í verðbólgureikningum,“ sagði Daníel og bendir á að þrátt fyrir mikla hækkun á fasteignamarkaði hefur leiguverð ýmist staðið í stað eða lækka frá því að heimsfaraldur skall á. 

Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, hlýddi á erindi í morgun.
Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, hlýddi á erindi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Loðnuvertíð skili 1,7 prósentustigi

Hagspá Landsbankans gerir ráð fyrir að næsta loðnuvertíð, þar sem veiðiheimild íslenskra skipa verður 660 þúsund tonn, muni skila 1,7 prósentustigi í hagvexti á næsta ári. „Það fer auðvitað aðeins eftir hlutföllum sem rata í frystingu, bræðslu og hrognatöku, en já gróft mat okkar er að vertíðin geti skilað allt að 75 milljörðum aukalega í útflutningstekjur.“

Næstu ár á eftir er gert ráð fyrir fallandi tekjum af loðnu og er þar stuðst við mælingar Hafrannsóknarstofnunar. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK