Rio Tinto ætlar að draga úr útblæstri um helming

Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Álver Rio Tinto í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rio Tinto ætlar að draga úr útblæstri kolefnis um 50 prósent fyrir árið 2030, að því er kemur fram í tilkynningu sem það sendi frá sér í morgun.

Fyrirtækið ætlar að eyða um 7,5 milljörðum dollara, eða um 970 milljörðum króna, til loka þessa áratugar til að draga úr útblæstri frá námuvinnslu og vegna orkunotkunar.

„Stjórnvöld eru sífellt að grípa til metnaðarfyllri markmiða og hraðari aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum,“ sagði í yfirlýsingunni, þar sem bætt var við að fyrirtækið þurfi að „vera í takt við tíðarandann“.

„Samfélagið í heild sinni er einnig að krefjast þess að fyrirtæki leggi meira á sig til að draga úr útblæstri.“

Rio Tinto, sem er eigandi álversins í Straumsvík, hefur sætt gagnrýni í mörg ár vegna mengunar af starfsemi sinni, þar á meðal vegna eitraðs úrgangs hjá námu í Gíneu.

Ráðgjafar hjá McKinsey telja að um fjögur til sjö prósent allra gróðurhúsalofttegunda sem er hleypt út í andrúmsloftið komi frá námuvinnslu.

Talan hækkar upp í næstum þriðjung af heildinni þegar um er að ræða óbeinan útblástur, sem er ekki hluti af markmiði Rio Tinto.

Tilkynning Rio Tinto kemur nokkrum vikum áður en alþjóðleg loftslagsráðstefna verður haldin í Glasgow í Skotlandi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK