Carbfix og Controlant hlutu Teninginn

Frá vinstri: Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélagsins, Edda Sif Pind …
Frá vinstri: Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélagsins, Edda Sif Pind Aradóttir framkvæmdastjóri Carbfix, Guðmundur Árnason fjármálastjóri Controlant og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ljósmynd/Anton

Carbfix og Controlant hlutu Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, þegar hann var afhentur í fyrsta sinn á Degi verkfræðinnar sem haldinn var á Hótel Nordica í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu en þar segir einnig að markmið viðurkenningarinnar sé að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem tæknifræðingar og verkfræðingar vinna að.

Hver dómnefndarmaður gaf einkunn fyrir hvert viðmið, sem eru alls sex talsins, og það verkefni sem hlaut hæstu meðaltals einkunn hreppti verðlaunin.

Teningurinn afhentur fyrir árin 2019 og 2020

Upphaflega átti að veita Teninginn í fyrsta skipti í fyrra en vegna kórónuveirufaraldursins var hann afhentur fyrir árin 2019 og 2020 í ár.

Carbfix hlaut Teninginn fyrir árið 2019 en það byrjaði sem samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands, CNRS í Toulouse og Columbia Háskóla árið 2007. Markmiðið var að þróa iðnaðarferli til þess að fanga koltvíoxíð úr útblæstri orkuvera og beint úr andrúmslofti og binda það í bergi.

Í lok árs 2019 var ákveðið að gera félagið að sjálfstæðu dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Tilgangur þess er að stuðla að frekari þróun, þekkingu og útbreiðslu kolefnisförgunar í bergi með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sporna gegn loftslagsbreytingum.

Controlant hlaut Teninginn fyrir árið 2020 en fyrirtækið þróar og framleiðir hug- og vélbúnað sem mælir meðal annars raka, hitastig og staðsetningu og sendir frá sér upplýsingar sem hægt er að fylgjast með í rauntíma til að tryggja gæði á viðkvæmum vörum og koma í veg fyrir sóun. Á þetta til dæmis við um matvæli og lyf, en síðarnefndi flokkurinn er meginuppistaðan í viðskiptum félagsins í dag.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK