Ekkert breytist með nýjum eigendum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist ekki hafa áhyggjur af því að Míla verði síðar meir seld í hendur til dæmis kínverskra eða rússneskra aðila. Slíkar vangaveltur hafa verið upp í ljósi sölu fyrirtækisins til alþjóðlega sjóðsstýringafyrirtækisins Ardian.

„Við erum áfram með lög um erlenda fjárfestingu. Það breytist ekkert við það að einhverjir eigendur einkafyrirtækis séu ekki lengur þeir sem þeir eru og verða einhverjir aðrir. Lagaumhverfi okkar hefur ekki breyst en við höfum hins vegar áform uppi um að uppfæra það umhverfi,“ segir Sigurður Ingi.

„Þannig að inn í langa framtíð hef ég ekki áhyggjur yfir því að við séum ekki með bæði lög og heimildir hjá eftirlitsaðilum til að fylgja því eftir, enda hluti af því samkomulagi að vera með trygga upplýsingagjöf um til að mynda raunverulega eigendur á hverjum tíma,“ bætir hann við.

Míla er dótturfélag Símans.
Míla er dótturfélag Símans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrenns konar breytingar

Beðinn um að nefna breytingarnar sem eru fyrirhugaðar á lagaumhverfinu bendir Sigurður Ingi á þrennt í því samhengi. Fyrst eru það lög um erlenda fjárfestingu sem þörf hefur verið á að uppfæra og hafa þau verið á borði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Einnig er frumvarp í smíðum í forsætisráðuneytinu um rýni á mikilvægum innviðum. Þar er um sambærilega löggjöf að ræða og hefur verið sett og verið er að setja á hinum Norðurlöndunum.

Í þriðja lagi nefnir hann ný heildarlög um fjarskipti sem voru lögð fram á Alþingi. Ekki náðist að klára þau í vor en þau verða endurflutt í haust. Inni í þeim verður aukið heimildarákvæði til eftirlitsaðila, ekki síst varðandi útvistun búnaðar, hvort sem hann er tæki eða hugbúnaður.

Sigurður Ingi segir mikið regluverk vera í kringum fjarskiptamarkaðinn. Vegna stærðar Mílu hafi fyrirtækið þurft að sæta auknu eftirliti, fyrst af hálfu Póst- og fjarskiptastofnunar og núna Fjarskiptastofu. „Á því er engin breyting en ef það verður breyting þá verður hún til enn frekari heimilda og lagastoða sem styðja þá við eftirlitshlutaverk okkar stofnana.“

Míla rekur víðtækt kopar- og ljósleiðarakerfi. Myndin er úr safni.
Míla rekur víðtækt kopar- og ljósleiðarakerfi. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Væntir þess að samstarfið gangi vel

Spurður hvað honum finnst um söluna á Mílu segir Sigurður Ingi hana hafa verið lengi yfirvofandi. Innviðir hjá öðrum fjarskiptafyrirtækjum hafi verið seldir en ákveðið var í samráði stjórnvalda og ráðuneyta fyrr á árinu að þau blönduðu sér ekki í slíkt vegna minni hlutar þeirra af starfsemi. Í tilfelli Mílu væru þetta aftur á móti mikilvægir innviðir sem þyrfti að hafa sérstaka skoðun á.

„Þess vegna erum við í þessu ferli og ég hef væntingar til þess að það samstarf muni ganga vel, bæði vegna viðbragða eiganda Mílu í dag og eins þeirra viðhorfa sem við höfum greint hjá þessum væntanlega kaupanda,“ segir Sigurður Ingi.

Nefnir hann jafnframt að fjárfestingin sé með þeim stærstu sem hér hafa verið gerðar og hún sé ákveðin traustsyfirlýsing á íslenskt efnahagslíf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK