Katrín fundaði með forstjóra Ardian

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti símafund í morgun með Dominique Senequier, forstjóra franska fyrirtækisins Ardian vegna kaupa þess á Mílu.

Að sögn Katrínar óskaði Senequer eftir stuttum símafundi með henni. „Þar upplýsti ég hana um þessi skilyrði af hálfu ríkisstjórnarinnar sem við töldum mikilvæg. Hún var upplýst um þau og vildi segja mér það, enda er það þannig að mjög víða í löndunum í kringum okkur er ýmist verið að setja herta löggjöf um rýni á fjárfestingum í mikilvægum innviðum eða er búið að setja slíka löggjöf,“ segir Katrín.

Þjóðaröryggisráð fundar í nóvember

Spurð út í fundarhöld hjá þjóðaröryggisráði í ljósi sölunnar á Mílu segir Katrín að ráðið hafi bent á, meðal annars í skýrslu sem var lögð fyrir Alþingi í febrúar síðastliðnum, mikilvægi þess að vera á sérstöku varðbergi gagnvart fjarskiptainnviðum sem séu hluti af mikilvægum innviðum.

Eftir að forstjóri Símans lét hana vita af því að sölumál Mílu gætu verið að komast á skrið greindi hún þjóðaröryggisráði frá stöðunni og tók málið í framhaldi upp á ríkisstjórnarfundi. Þar var samgönguráðherra falið að eiga samtal við Símann um skilyrði vegna sölunnar. Meðal annars er sú krafa uppi að búnaðurinn verði í íslenskri lögsögu og að stöðugt upplýsingastreymi sé um raunverulega eigendur.

Fyrsti opinberi fundur Símans og Samgönguráðuneytisins verður á miðvikudaginn. Katrín væntir þess að skýrsla um stöðu mála í þeim viðræðum verði gefin á næsta reglulega fundi þjóðaröryggisráðs sem verður í nóvember.

Míla er dótturfélag Símans.
Míla er dótturfélag Símans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld skapi skýran ramma

Spurð hvort hún sé ánægð með söluna á Mílu nefnir Katrín að flokkur hennar, Vinstrihreyfingin-grænt framboð, hafi verið á móti slíkri einkavæðingu á sínum tíma, árið 2005. Þá hafi mikið verið rætt um grunninnviði og þau sjónarmið komu fram að eðlilegt væri að þeir væru í opinberri eigu.

„Í ljósi þessarar stöðu, að fyrirtækið er í einkaeigu og nú hefur þessi kaupandi viljað koma í þetta þá held ég að aðalmálið núna fyrir stjórnvöld sé að skapa eins skýran ramma og mögulegt er og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að það gangi vel,“ greinir hún frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK