Álver nýtir tækni Carbfix í fyrsta sinn

Álverið í Straumsvík er það fyrsta sem beitir tækni Carbfix …
Álverið í Straumsvík er það fyrsta sem beitir tækni Carbfix við föngun kolefnis. Árni Sæberg

Rio Tinto og Carbfix hafa tekið saman höndum um að fanga kolefni frá álveri ISAL við Straumsvík og binda það varanlega sem steindir í bergi í grennd við álverið. Er þetta í fyrsta sinn sem álver beitir Carbfix tækninni við föngun kolefnis, að því er greint frá í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Samstarfið felur í sér að á lóð Rio Tinto við álverið í Straumsvík verður komið upp fyrstu móttöku- og förgunarstöð í heimi fyrir CO2, svokallaðri Coda Terminal. Þangað verður koldíoxíð flutt á fljótandi formi sjóleiðina frá iðjuverum í Norður-Evrópu og því breytt í stein með Carbfix-aðferðinni við Straumsvík.

Rio Tinto lítur svo á að þessi kolefnisförgun við húsdyrnar geri álver ISAL kjörið til að verða fyrsta álverið með eigin kolefnisföngun og -förgun. Saman munu fyrirtækin einnig þróa áfram kolefnisföngunaraðferðir sem þegar er verið að prófa í álverinu með það að markmiði að draga enn frekar úr kolefnislosun.

Segir samstarfið stórt skref til uppbyggingar

Edda Sif Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix og Ivan Vella, yfirmaður álframleiðslu …
Edda Sif Aradóttir framkvæmdastýra Carbfix og Ivan Vella, yfirmaður álframleiðslu Rio Tinto. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Heimsbyggðin muni ekki ná loftlagsmarkmiðum sínum án kolefnisföngunar og -förgunar, að sögn Eddu Sifjar Aradóttur, framkvæmdastýru Carbfix.

„Með þessu samstarfi við Rio Tinto tökum við risastórt skref til uppbyggingar á heimsins fyrstu móttöku- og förgunarstöð fyrir koldíoxíð og leggjum þannig drjúgan skerf til loftslagsmála,“ segir hún.

Tækniþróun Carbfix hafi rutt brautina að því að minnka kolefnisspor ISAL enn frekar, að sögn Ivan Vella, yfirmanns álframleiðslu hjá Rio Tinto.

„Við munum vinna saman að lausnum á þeim tæknilegu áskorunum sem við höfum þegar hafið þróun á í álverinu. Þá munum við ennfremur horfa til tækifæra til að nýta Carbfix-tæknina til að draga úr kolefnisspori í allri starfsemi Rio Tinto þar sem við vinnum þegar að annarri tækniþróun svo sem í ELYSIS samstarfinu sem miðar að kolefnishlutlausri álframleiðslu.“

Edda og Ivan Vella við eina af förgunarstöðvum Carbfix.
Edda og Ivan Vella við eina af förgunarstöðvum Carbfix. Birgir Ísleifur Gunnarsson

Carbfix hyggst bora fyrstu niðurdælingarholuna fyrir Coda-móttökustöðina árið 2022 og að fyrstu skipsfarmarnir af CO2 berist stöðinni 2025.

Með Carbfix-aðferðinni eru náttúrulegir ferlar nýttir og þeim hraðað til að umbreyta CO2 varanlega í steindir. Það sem til þarf er vatn, rafmagn og svo viðeigandi berggrunnur, en basaltið umhverfis álver ISAL er einkar hentugt fyrir umbreytinguna.

Frá árinu 2014 hefur Carbfix fangað og fargað meira en 70.000 tonnum af kolefni frá Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar. Nýverið tók Carbfix svo saman höndum við Climeworks um umfangsmestu kolefnisförgun heims beint úr andrúmslofti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK