8,2 milljarða hagnaður Arion banka

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagnaður Arion banka á þriðja fjórðungi þessa árs nam 8.238 milljónum króna. Arðsemi eiginfjár var 17% samanborið við 8,3% á þriðja fjórðungi í fyrra. Heildareignir bankans jukust um 14,8% frá áramótum. Arðgreiðslur og endurkaup á hlutbréfum bankans námu 25,5 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Hreinn vaxtamunur var 2,7% í lágu vaxtaumhverfi, samanborið við 2,9% á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Þriðji ársfjórðungurinn er sá besti hvað hreinar þóknanatekjur varðar frá árinu 2016. Aukningin er um 36% frá þriðja fjórðungi í fyrra.

Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 7,5% samanborið við á sama tíma í fyrra. Kostnaðarhlutfallið á fjórðungnum var 37,5%, samanborið við 40,2% á sama fjórðungi í fyrra.

Arion banki gaf út sértryggð skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra í september en um var að ræða fyrstu sértryggðu skuldabréfaútgáfu íslensks banka í evrum.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Ljósmynd/Aðsend

Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 25,4% í lok júní og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 20,9% að teknu tilliti til væntrar arðgreiðslu, sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans, og fyrirhugaðra endurkaupa eigin bréfa að fjárhæð 10 milljarða króna, samanborið við 27,0% og 22,3% um áramót, að því er segir í tilkynningunni.

Heildareignir námu 1.346 milljörðum króna í lok september, samanborið við 1.173 milljarða króna í árslok 2020. Lán til viðskiptavina jukust um 9,0% frá áramótum en íbúðalán hækkuðu um 16,4% á sama tíma. Lausafé jókst um 15,3% þrátt fyrir endurkaup á hlutabréfum bankans og arðgreiðslu. Á skuldahliðinni jukust innlán um 12,8% fyrstu níu mánuði ársins og lántaka jókst um 32,8%, mest á þriðja ársfjórðungi þegar bankinn gaf út græn skuldabréf og sértryggð skuldabréf í evrum. Heildar eigið fé nam 195 milljörðum króna í lok tímabilsins og kom afkoma tímabilsins til hækkunar. Til lækkunar komu arðgreiðslur og endurkaup á hlutabréfum bankans.

Jákvæð þróun 

„Starfsemi Arion banka gekk vel á þriðja ársfjórðungi eins og hún hefur raunar gert allt þetta ár. Allir helstu fjárhagsmælikvarðar bankans þróast með jákvæðum hætti á tímabilinu og tekjur af kjarnastarfsemi aukast um 7,5% frá sama tímabili fyrir ári. Þóknanatekjur bankans halda áfram að aukast og bera fjölbreyttri starfsemi bankans vott. Í takt við jákvæða þróun í efnahagslífi landsins aukast útlán Arion banka um 6% á fjórðungnum. Eiginfjár- og lausafjárhlutföll bankans eru áfram sterk og með því hæsta sem gerist í Evrópu,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í tilkynningunni.

„Arion banki gaf nýverið út sértryggð skuldabréf í evrum sem er nýjung í fjármögnun bankans og opnar aðgengi að nýjum hópi fjárfesta. Útgáfunni var afar vel tekið og vakti þó nokkra eftirtekt á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum. Kjörin voru þau hagstæðustu sem íslenskur útgefandi, að íslenska ríkinu meðtöldu, hefur fengið á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum á síðustu 13 árum og er mikilvæg viðbót við fjármögnunarkosti bankans til framtíðar," segir Benedikt.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK