Hopp fær 381 milljónar króna fjármögnun

Rafskútur frá Hopp.
Rafskútur frá Hopp. Ljósmynd/Hopp

Íslenska rafskútufélagið Hopp hefur tryggt 381 milljónar króna fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði II og stefnir nú á frekari opnanir á erlendum mörkuðum með sérleyfum, að því er fram kemur í tilkynningu.

Hopp hefur rekið þjónustu sína hérlendis síðan 2019 en það var stofnað af íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja. Stofnendur Aranja eru Ægir Giraldo Þorsteinsson, Eiríkur Heiðar Nilsson og Ragnar Þór Valgeirsson.

Fram kemur í tilkynningunni að helsta sérstaða félagsins sé hugbúnaðarlausnin ásamt því að einblína á sérleyfisrekstur í smærri borgum og bæjum í Evrópu.

Félagið gerir sérleyfishöfum kleift að reka deilirafskútuleigu á sínu heimasvæði og fá þau þannig ábyrgð og hag af rekstrinum sjálf. Á tveimur árum er Hopp búið að opna 11 sérleyfi í þremur löndum með rúmlega 2.300 rafskútum. Hlutafjáraukningunni er ætlað að flýta fyrir vexti félagsins, fyrst og fremst með því að efla sölu- og markaðssetningu erlendis. Áform félagsins er að opna á 100 stöðum innan tveggja ára. 

„Okkar markmið er að gera fyrir rafskútur það sem McDonald's gerði fyrir hamborgarann. Við viljum færa þessa tækni til minni borga þar sem er óplægður akur og fá heimamenn með okkur í lið. Við viljum deilihagkerfisvæða ferðavenjur fólks,” segir Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopps. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK