Afkoma Play neikvæð um 1,4 milljarða króna

Flugfélagið Play.
Flugfélagið Play. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélagið Play tapaði 10,8 milljónum bandaríkjadollara á þriðja ársfjórðungi þessa árs, eða um 1.4 milljörðum króna. 

Afkoma félagsins er þannig sögð undir væntingum fyrir umrætt tímabil, en fjórða bylgja kórónuveirunnar er sögð hafa sett strik í reikninginn. 

Þóra Eggertsdóttir, fjármálastjóri Play, kynnti rekstrarafkomu félagsins á sérstökum fundi fyrir fjárfesta í Kaupmannahöfn nú síðdegis.

Í máli hennar kom fram að stærstu kostnaðarliðir félagsins væru starfsmannakostnaður (18,8%) og eldsneytiskostnaður (16,7%).

Neikvæð afkoma en horfur sagðar bjartar

Þrátt fyrir þetta er fjárhagsstaða félagsins sögð sterk og eru bjartir tímar sagðir framundan. Þannig segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að haldi fram sem horfi muni félagið ná að haga rekstri sínum þannig að hagnaður skapist á næstu árum. 

Þannig er fyrirhugað að um 300 starfsmenn starfi hjá Play næsta sumar, en þeir eru alls um 130 í dag. 

Auk þess muni vélarfloti félagsins stækka úr þremur vélum nú í allt að 15 vélar innan örfárra ára. 

Sætanýting Play hefur aukist jafnt og þétt frá því að félagið hóf flugferðir í sumar. Í júlímánuði var sætanýting 41,7% en í september hafði hún aukist í 52,1%. Í október var sætanýting Play svo komin upp í 68%.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK