9,5 milljarða lægri skattar á lögaðila

Álagningu gjalda á lögaðila er nú lokið fyrir síðasta ár.
Álagningu gjalda á lögaðila er nú lokið fyrir síðasta ár. mbl.is/Golli

Álögð gjöld á lögaðila nema 180,3 milljörðum króna vegna síðasta árs, en það er lækkun um 9,5 milljarða milli ára. Breytingar einstakra skatta eru bæði til hækkunar og lækkunar, en álagningin ber óhjákvæmilega nokkur merki faraldursins og áhrifa af honum. Þannig drógust tekjustofnar saman vegna minni efnahagsumsvifa og með auknu atvinnuleysi. Þá lækkaði bankaskattur talsvert, en endurgreiðsla vegna rannsóknar- og þróunarkostnaður hækkaði talsvert. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Gjaldskyldum félögum fækkar um 242 milli ára, eða um 0,5%. Voru gjaldskyldir lögaðilar á síðasta ári 48.088 í heild.

Ef rýnt er í staka tekjustofna má sjá að mesta breytingin er á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki. Skatthlutfallið var 0,376% af heildarskuldum fjármálafyrirtækjanna yfir 50 milljörðum, en var lækkað niður í 0,145%. Samtals greiða fimm lögaðilar þennan skatt og fjölgar um einn milli ára. Heildarskattur lækkar hins vegar um rúmlega 6,1 milljarð, eða úr 10,9 milljörðum í 4,8 milljarða.

Tryggingagjald, sem er jafnframt er langt stærsti tekjustofn ríkisins frá lögaðilum, lækkar um 5% milli ára. Er álagt tryggingagjald fyrir síðasta ár 97 milljarðar en var árið áður 102,2 milljarðar. Tekjuskattur hækkar um 1,5% milli ára og fer úr 68,2 milljörðum í 69,2 milljarða.

Fjármagnstekjuskattur á lögaðila hækkar hins vegar um 75% milli ára. Er hann nú 3,4 milljarðar, en var árið áður tæplega 2 milljarðar.

Endurgreiðslur ríkissjóðs vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar nema alls 10,4 milljörðum samkvæmt álagningunni í ár samanborið við 5,2 milljarða í fyrra. Mikil aukning endurgreiðslna milli ára kemur m.a. til vegna tímabundinnar hækkunar á endurgreiðsluhlutfalli og hækkunar á kostnaði til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022, að því er fram kemur í tilkynningunni. Alls fá 264 lögaðilar stuðninginn í ár, en þeir voru 201 á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK