Afnám ívilnana gæti haft alvarlegar afleiðingar

Ákveði stjórnvöld á Íslandi að falla frá ívilnunum gagnvart kaupum á nýjum tengiltvinnbílum um komandi áramót gæti það leitt til bílaskorts í landinu. Þetta segir forstjóri Öskju.

Í viðtali í Dagmálum í liðinni viku skoraði Jón Trausti Ólafsson, forstjóri bílaumboðsins á stjórnvöld að breyta þeim fyrirætlunum sem fyrir liggja um að helminga þær ívilnanir um áramót sem kaupendur nýrra tengiltvinn-bíla njóta um þessar mundir, þ.e. allt að 960 þúsund króna afsláttar á virðisaukaskatti. 

Verði engar breytingar gerðar fyrir árslok munu ívilnanir falla niður í 480 þúsund. Auk þess standa líkur til þess að svokallaður 15.000 bíla kvóti, sem ívilnanir miða við og vísar til fyrstu 15 þúsund bílanna sem fluttir eru inn til landsins með þessari tækni, verði fylltur í febrúar næstkomandi. Verði það reyndin munu ívilnanir falla niður með öllu.

Bendir Jón Trausti á að það leiði til þess að tengiltvinn-bíll sem í dag kostar 4 milljónir króna, muni kosta 5 milljónir í febrúar. Jafngildir það 25% hækkun á bíltegundum sem fólk er þó hvatt til að kaupa í því skyni að draga úr útblæstri frá bílaumferð.

Hann bendir einnig á að regluverk ESB geri ráð fyrir því að bílaframleiðendur haldi meðallosun sinna bíla undir ákveðnum mörkum. Það hafi verið 90 gr. af CO2 í fyrra og verði 80 gr. á næsta ári. 

Það skipulag sem stefnir í hér á landi með niðurfellingu fyrrnefndra ívilnana gæti leitt til þess að hingað verði aðeins fluttir inn hreinir rafbílar og hreinir bensínbílar. Slíkt fellur illa að þeim kröfum sem gerðar eru til bílaframleiðendanna sem í kjölfarið gætu séð sig knúna til þess að draga úr framboði á bensín- og díselbílum til landsins.

Gæti leitt til bílaskorts

„Það gæti einfaldlega leitt til bílaskorts í landinu,“ segir Jón Trausti.

Í viðtalinu ítrekar hann að innan fárra ára verði rafbílar algjörlega ráðandi á markaðnum en að enn þurfi að brúa bilið frá sprengihreyflinum til rafmótorsins. Framþróunin sé hröð og að framleiðsla á rafhlöðum verði sífellt ódýrari. Enn þurfi þó tvö til þrjú ár með ívilnunum áður en markaðurinn leysi málið af sjálfsdáðum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK