Gagnrýna víðtæka heimild til kyrrsetningar

mbl.is/sisi

Heimildir skattyfirvalda til að kyrrsetja eignir og áform um að auka enn frekar við þær heimildir eru gagnrýnd í umsögn Logos lögmannsþjónustu við frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, sem birt er í samráðsgátt stjórnvalda.

Bjarnfreður Ólafsson lögmaður, sem ritar undir umsögn Logos, segir þar að heimildir skattyfirvalda til kyrrsetningar séu í framkvæmd nánast hlutlægar og óháðar raunverulegu mati og endurmati dómstóla á hættu á undanskoti eigna. Lagaheimildir á þessu sviði séu svo almennar og víðtækar að dómstólar hafi nánast ekkert um skilyrði kyrrsetningar að segja ef skattborgarar vilji láta reyna á skilyrðin.

Reyndin sé sú að ef skattrannsóknarstjóri veitir einhverjum aðila stöðu grunaðs manns þá geti hann jafnframt látið kyrrsetja eignir hans án þess að nokkur hafi frekar um það að segja. „Margir þolendur (og lögmenn þeirra) hafa séð hversu galið þetta fyrirkomulag getur verið,“ segir hann í umsögninni.

Skýr mörk verði að vera

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að núverandi heimildir ríkisskattstjóra í lögum um innheimtu opinberra skatta og gjalda til kyrrsetningar eigna við rannsókn og saksókn skattalagabrota nái líka til meintrar refsiverðar háttsemi sem sætir sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra. Með því verði tryggt að ríkisskattstjóra verði heimilt að framkvæma kyrrsetningu hvort sem um sé að ræða stjórnsýslumál sem afgreidd eru innan skattkerfisins eða alvarlegri mál sem sæta refsimeðferð. „Jafnframt er lögð til sú breyting að heimila kyrrsetningu á meðan mál er til meðferðar hjá lögreglu eins og í tilviki mála sem eru til rannsóknar og myndi ríkisskattstjóri þá annast rekstur kyrrsetningarinnar vegna rannsóknarinnar,“ segir þar.

Í umsögn Logos segir að það gefi augaleið að einhver skýr og eðlileg mörk verði að vera fyrir svo íþyngjandi heimildum sem kyrrsetningar í skattamálum eru, hafa verði raunverulegt eftirlit með framkvæmdinni og ríkissjóður þurfi að bera fulla óbyrgð á því tjóni sem röng kyrrsetning kunni að valda borgara og fjölskyldu hans. Heimild til kyrrsetningar vegna skattalagabrota geti verið eðlileg og nauðsynleg ef aðrar aðgerðir duga ekki en slíkt ætti að heyra til undantekninga.

Setur líf þeirra úr skorðum

„Kyrrsetningarnar fara fyrst og fremst fram í fasteignum og bankareikningum og þær beinast að borgurum landsins þegar ekkert liggur fyrir um sekt þeirra.

Reynslan er sú að kyrrsetningar setja líf þeirra sem í þeim lenda, og fjölskyldna þeirra, alveg úr skorðum. Þetta á jafnt við um þá sem vita upp á sig skömmina og hina sem telja sig alsaklausa og hafa sterk rök fyrir þeirri trú sinni,“ segir ennfremur í umsögn lögmannsstofunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK