Viðbrögð Seðlabankans þurfi að vera trúverðug

Ari Fenger formaður Viðskiptaráðs.
Ari Fenger formaður Viðskiptaráðs. Rax / Ragnar Axelsson

Þótt efnahagslífið hafi ekki enn jafnað sig að fullu og sagan eigi eftir að kveða upp sinn dóm hafa aðgerðir Seðlabankans bæði átt þátt í að milda höggið og hjálpa viðspyrnunni síðustu mánuði. Þetta sagði Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands, í opnunarávarpi sínu á peningamálafundi Viðskiptaráðs.

Segir Seðlabankann hafa skipt um gír

Segir hann það í það minnsta varla vera tilviljun að fyrir ári síðan hafi Seðlabankinn spáð samanlagt meira en 6% efnahagssamdrætti frá 2019 til 2021 en nú líti út fyrir að hann sé tæp þrjú prósent.

„Síðustu mánuði hafa sögulega lágir vextir, töluverðar launahækkanir og mikill uppsafnaður sparnaður valdið miklum eftirspurnarþrýstingi. Þetta hefur kannski sést hvað skýrast á fasteignamarkaði,“ segir Ari.

Nú hafi Seðlabankinn því skipt um gír en frá síðasta fundi hafi vextir verið hækkaðir í fjórgang um alls 1,25 prósentustig. Árangurinn hafi þó hingað til látið á sér standa þar sem verðbólga stendur í 4,5% og greiningaraðilar spáð því að hún verði um 5% í þessum mánuði.

Ástæðurnar segir hann nokkuð kunnar. Eftirspurn hafi frá upphafi kórónuveirufaraldursins færst úr þjónustu og yfir í vörur. Tekjur almennings víða um heim hafi aukist og virðiskeðjur raskast með þeim afleiðingum að þróuð ríki hafi ekki séð slíka verðbólgu í að minnsta kosti þrjá áratugi.

„Við sem flytjum inn vörur að utan finnum vel fyrir þessu.“

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Þegar heimsmarkaðsverð á hráefnum eins og sykri, hveiti og olíu er að hækka á bilinu 30-80% á síðastliðnum 12 mánuðum sé því miður ansi líklegt að neytendur muni verða varir við það í hækkandi útsöluverði og ekki sé flutningskostnaðurinn að hjálpa til í ofanálag.

Fyrirtæki muni leita leiða til að hagræða en það séu takmörk fyrir því hversu miklar kostnaðarhækkanir þau geta tekið á sig. Atvinnurekendur hafi nefnilega ekki hallað sér aftur undanfarin misseri. Þvert á móti hafi þurft að hagræða og sjálfvirkni verið aukin til að mæta þeim miklu launahækkunum sem hafi átt sér stað undanfarin ár.

Varlega þurfi að fara í vaxtahækkanir

Viðskiptalífið lítur almennt svo á að Seðlabankinn þurfi að fara eins varlega og hægt er í vaxtahækkanir, en án þess að það setji verðstöðugleika í uppnám.

„Það er nefnilega svo, að hátt vaxtastig er, og hefur verið, sérstaklega mikill dragbítur á samkeppnishæfni landsins. Hér vantar sárlega fjárfestingu, ekki hvað síst í rannsóknum og þróun, til að efla hagvaxtargetu til lengri tíma.“

Segir hann Viðskiptaráð taka heilshugar undir þetta og minnir á að Seðlabankinn, líkt og viðskiptalífið sjálft og stjórnvöld, gegni þarna lykilhlutverki.

Stóra spurningin, sem seðlabankar um allan heim séu að reyna svara sé hvort um sé að ræða skammvinnt verðbólguskot, sem muni ekki hafa áhrif á verðbólguvæntingar að hvort herða þurfi ólina. Í stærra samhengi séð það partur af enn stærri umræðu um hve mikil áhrif faraldurinn muni hafa á líf okkar til lengri tíma.

„Svarið er alls ekki einfalt, en það má þó hafa nokkrar áhyggjur af því að þetta verðbólguskot geti dregið dilk á eftir sér hér á landi, einkum af tveimur ástæðum. Annars vegar hafa verðbólguvæntingar á markaði hækkað. Þannig hafa fimm ára verðbólguvæntingar hækkað um tæpt prósentustig frá því ágúst. Hins vegar hefur verkalýðshreyfingin sagt hreint út að meiri verðbólga muni leiða til hærri launakrafna.“

Vinnumarkaðurinn ekki fylgt á eftir

Ef af því verði sé það skólarbókardæmi um hvernig verðbólguskot geti leitt til hærri verðbólguvæntinga og þannig fest aukna verðbólgu í sessi, að sögn Ara. Þetta varpi skýru ljósi á þema fundarins en yfirskrift hans var: „Er vinnumarkaðurinn týndi hlekkurinn?“

Hann segir Seðlabankann hafa gert margt vel á síðustu misserum og að á síðastliðnum sjö árum hafi honum tekist betur en nokkru sinni fyrr að stuðla að stöðugu verðlagi sem sé forsenda þess að við búum við lægra vaxtastig nú en nokkurn tímann áður.

„Á sama tíma hafa einnig orðið jákvæðar breytingar á allri umgjörð um opinber fjármál. Það má segja að þessar framfarir helgist af því að Seðlabankinn og ríkisvaldið hafi lært af reynslunni.“

Því miður virðist öðru máli gegna um þriðju stoð í hagstjórninni, vinnumarkaðnum, að sögn hans.

Vinnumarkaðurinn er mjög miðstýrður og þátttaka í stéttarfélögum hvergi meiri en hér á landi. Síðustu ár hafa laun hækkað í 10 af 11 skiptum umfram það svigrúm sem verðbólgumarkmiðið leyfir. Þessi saga er ekki ný. Ef við horfum alla leið aftur til ársins 1973 hafa laun hækkað um 211.000%. Af því skiluðu aðeins 0,09% af hverri krónu auknum kaupmætti.

„Allir tapa og enginn vinnur“

Það blasi því við að eitthvað þurfi að gera öðruvísi. Hluti launa í verðmætasköpun hér á landi sé hár bæði í alþjóðlegu og sögulegu samhengi.

„Það er eitthvað sem verkalýðshreyfingin getur verið stolt af. Jafnframt þurfum við að horfast í augu við að möguleikar til þess að hækka laun áfram umfram svigrúm eru takmarkaðir án þess að það hafi einhverjar afleiðingar.“

Hingað til hafi þessar afleiðingar verið verðbólga og gengi krónunnar. Ef laun hækki sérstaklega sem viðbragð við verðbólgu muni það aftur auka verðbólguþrýsting, sem þýði auknar launakröfur.

„Við þekkjum þessa sögu allt of vel. Allir tapa og enginn vinnur,“ segir Ari.

Þykir honum ástæða til þess að velta upp spurningunni um hvort hægt sé að reka sjálfstæða peningastefnu í núverandi vinnumarkaðsumhverfi þar sem laun hækki sífellt umfram verðbólgumarkmið.

Tryggja þurfi að launaþróun verði sjálfbær

Ég hef fulla trú á því að hægt sé að tryggja betur að launaþróun hér á landi sé sjálfbær. Að hún sé í samræmi við framleiðni og 2,5% verðbólgumarkmið. Bæði til að tryggja kaupmátt en einnig til að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að skapa verðmætin sem eru forsenda kaupmáttar.“

Í þessu samhengi hafi Viðskiptaráð lengi horft til norræna vinnumarkaðsmódelsins þar sem kjarasamningar séu ávallt bundnir stöðu og horfum í efnahagsmálum, að sögn hans.

„Í fyrirtækjarekstri er fyrirsjáanleiki ein sú breyta sem skiptir hvað mestu máli. Það er ekki síst þess vegna sem ég vildi minna á að Seðlabankinn þarf ekki frekar en aðrir að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er samt sem áður nauðsynlegt að viðbrögð hans séu trúverðug og tiltölulega fyrirsjánleg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK