10,6 milljarða sveifla hjá OR vegna hærra álverðs

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur á þriðja ársfjórðungi hljóðar upp á 2,1 milljarð króna, samanborið við 1,6 milljarða á sama tíma í fyrra. Hagnaður félagsins fyrstu níu mánuði ársins nemur 10,9 milljörðum, en var fyrstu níu mánuði síðasta árs 743 milljónir. Þetta er meðal þess sem sjá má í árshlutareikningi félagsins sem var samþykktur af stjórn félagsins í dag.

Rekstrartekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi nema 11,6 milljörðum og hækka um tæplega 900 milljónir frá sama tíma í fyrra. Hafa tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins hækkað um rúmlega 2,6 milljarða og nema nú 37,66 milljörðum.

Rekstrarkostnaður félagsins nam hins vegar 4,2 milljörðum á þriðja ársfjórðungi og lækkar úr 4,3 milljörðum. Þegar horft er til fyrstu níu mánaða ársins nemur lækkunin um 900 milljónum og var hann 13,3 milljarðar.

Auk móðurfélagsins eru innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur félögin Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

Í tilkynningu frá félaginu segir meðal annars að tekjur allra starfsþátta hafi vaxið milli ára og að rekstrarhagnaður (EBIT) nemi 14,4 milljörðum króna en var 11,2 milljarðar fyrstu níu mánuðina í fyrra.

Stærsti áhrifavaldur í þessum mikla viðsnúningi milli ára er vegna þróunar álverðs. Í reikningsskilum félagsins er lagt mat á verðmæti langtíma sölusamninga um rafmagn. Aukist verðmæti þeirra eða minnki er mismunurinn færður í rekstrarreikning.

Í upphafi faraldursins lækkaði álverð og þar sem hluti raforkusölu félagsins er tengdur álverði kom lækkað mat á verðmæti slíkra samninga niður á reiknaðri afkomu OR á árinu 2020. Á yfirstandandi ári hefur álverð hinsvegar hækkað talsvert. Þannig er bent á að eftir fyrstu níu mánuði síðasta árs var verðmæti þessara langtímasamninga metið hafa lækkað um 2,75 milljarða, en með hækkun á þessu ári er verðmæti þeirra talið hafa vaxið um 7,86 milljarða. Sveiflan milli ára í þessari reiknuðu stærð uppgjörsins nemur því liðlega 10,6 milljörðum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK