Kolefnishlutlaus Ölgerð árið 2040

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

Ölgerðin hefur tilkynnt að stefnt sé að því að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust árið 2040, en fyrirtækið hefur verið í framvarðarsveit íslenskra fyrirtækja á sviði sjálfbærni og með þessum aðgerðum er enn eitt skrefið í þá átt tekið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. 

Ölgerðin hefur mælt og fylgst náið með losun frá öllum rekstri frá árinu 2015 og hefur á þeim tíma minnkað kolefnisspor sitt um 65%. Fyrirtækið gengur nú enn lengra og hefur lagt í umtalsverða vinnu við að ná utan um kolefnisspor virðiskeðjunnar út frá vísindalegum viðmiðum Science Based Targets. Niðurstaðan er sú að eigin rekstur Ölgerðarinnar leiðir af sér undir 10% af áhrifum en yfir 90% verða til í aðfangakeðjunni sjálfri. Þannig má nefna að um 35% af kolefnissporinu sem mælist er vegna framleiðslu á umbúðum, segir ennfremur í tilkynningu Ölgerðarinnar. 

Nú er ekki aftur snúið

„Það er mikilvægt að fyrirtæki komi að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við höfum sett okkur þessi markmið og nú er ekki aftur snúið. Þessu verður náð m.a. með orkuskiptum sem er nú þegar hafið og með því að setja allan kraft í það að bæta ferla fyrirtækisins út frá hringrásahagkerfinu, frá hráefnum og umbúðum til endurvinnslu. Við viljum sína öðrum fyrirtækjum gott fordæmi en Ísland mun aldrei ná loftslagsmarkmiðum sínum nema að fyrirtækin taki þátt,“ er haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar

Þá kemur fram, að Ölgerðin sé meðal fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að setja markmið til styttri og lengri tíma út frá vísindalegum samþykktum aðferðum og meðal annars skuldbundið sig til að ná enn frekar niður kolefnisspori um 42% til ársins 2030. Þetta markmið miði að Parísarsamkomulaginu um að halda hækkun hitastigi jarðar innan við 1,5°C til 2030 (Science Based Target).

Áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri fyrirtækisins

„Markmið Ölgerðarinnar er að sjálfbærni sé hluti af rekstri fyrirtækisins og að horft verði á sjálfbærni með sama hætti og fjárhagsupplýsingar félagsins. Það er trú fyrirtækisins að áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri fyrirtækisins og styrki fjárhagslega arðsemi til framtíðar. Ölgerðin ætlar að draga úr efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum kostnaði og þannig styrkja samkeppnishæfni sína. Markvisst er verið að innleiða sjálfbærni í menningu fyrirtækisins og skapa þannig eftirsóttan vinnustað,“ segir ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka