Voru ákveðin í að endurbyggja

Á Kleif Farm er lúxusinn í fyrirrúmi þar sem gestir …
Á Kleif Farm er lúxusinn í fyrirrúmi þar sem gestir geta slakað á í heitum potti með frábæru útsýni. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

Í stórbrotnum fjallasal í Eilífsdal í Kjós, þar sem áður stóð hús sem hýsti varphænur í búrum, stendur nú lúxusvillan Kleif Farm. Hjónin Erla Aðalsteinsdóttir og Ólafur Þór Júlíusson eru eigendur Kleif Farm og sjá þau alfarið um reksturinn en jörðin sem húsið stendur á er skráð í eigu foreldra Erlu sem eru bændur á bænum.

Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, arkitektar hjá Kurt og Pí, leiddu hönnun á endurgerð hússins en Erla og Ólafur sáu um stíliseringu innanhúss að mestu sjálf.

Fyrirséð að notkun hússins myndi breytast

Erla er líffræðingur að mennt en eftir útskrift starfaði hún lengst af hjá lyfjafyrirtækinu Actavis, eða í um tvo áratugi. Hún hafði svo verið að hugsa sér til hreyfings í starfi á svipuðum tíma og dýraverndarlögum var breytt og bann var lagt við búrhaldi á varphænum. Þá var fyrirséð að notkun hússins myndi breytast.

Náttúruleg, hrá efni og mjúkir litir setja hlýjan blæ á …
Náttúruleg, hrá efni og mjúkir litir setja hlýjan blæ á húsið. Ljósmynd/Gunnar Sverrisson

„Við ákváðum að þetta væri kjörið tækifæri fyrir mig til að skipta um starfsvettvang og hefja uppbyggingu á landinu með það í huga að geta eytt meiri tíma þar í framtíðinni,“ segir hún í samtali við blaðamann.

Vildu halda í sögu hússins

Erla og Ólafur réðust í uppbyggingu á húsinu árið 2017. Verkið tók tvö ár og fór mikil vinna í að strípa og þrífa húsnæðið, að sögn Erlu.

„Það kemur alltaf í bakið á manni hvað það er mikil vinna að endurbyggja gamalt hús. Það hefði verið einfaldara að rífa húsið alveg niður og byggja nýtt en við vildum það aldrei. Við vorum svo ákveðin í að endurbyggja húsið frekar og halda þannig í sögu þess. Þótt það sé alveg galið þá held ég að við myndum alltaf gera það þannig ef við ættum að gera þetta aftur.“

Öll fjölskyldan hafi þó lagt hönd á plóg og var útkoman glæsileg fimm herbergja lúxusvilla, með gistiplássi fyrir 10 manns, sérbaðherbergi inn af hverju herbergi, rúmgóðri setu- og borðstofu, heitum potti og tveimur eldhúsum. Húsið leigja þau svo aðallega út til efnameiri hópa erlendra ferðamanna, að sögn Erlu.

„Við byggðum þetta með það í huga. Við vissum að það væri heilmikið af gistingu í boði á þessu svæði í kringum Reykjavík en við vildum hafa aðgreiningu og sáum að við myndum helst ná henni með því að hafa meiri lúxus.“

Ólafur, eiginmaður Erlu, er byggingatæknifræðingur, fjallaleiðsögumaður og einn forsvarsmanna 3H Travel, fyrirtækis sem býður upp á skipulagðar ferðir ofan í Þríhnúkagíg, gamla eldstöð sem gaus fyrir um fjögur þúsund árum. Fjöldi efnameiri hópa sækir í ferðirnar í Þríhnúkagíg og þar hafi þau hjónin séð tækifæri í hendi sér.

„Þarna sáum við smá glufu í markaðnum, að við gætum verið með hús sem hentar fyrir hópa af þessu tagi. Út frá því ákváðum við t.d. að vera með baðherbergi inn af öllum herbergjum, nokkuð sem Bandaríkjamenn hafa verið sérstaklega ánægðir með, þar sem þeir vilja gjarnan meira næði. Svo ákváðum við að vera með þetta aukaeldhús sem er þá ætlað fyrir einkakokk eða þegar við sjáum um að elda fyrir hópana. Eldamennsku fylgir oft mikið bras og þá er svo notalegt fyrir gestina að geta setið í næði í borðstofunni á meðan það er eldað á bak við,“ segir Erla.

Innt eftir því segir hún erfitt að skilgreina hvers konar gistingu er um að ræða þar sem hvorki er um hótel né hefðbundið gistiheimili að ræða.

„Það er eiginlega ekki til flokkur fyrir þetta inni á ferðaþjónustusíðunum því þetta er bara hús. Það er alltaf leigt út í heilu lagi til fjölskyldna eða vinahópa. Það kemur enginn hingað og leigir bara eitt herbergi.“

Þá sé misjafnt hversu mikil þjónusta fylgi leigunni á húsinu. Þau hjón standi þó gjarnan vaktina sem gestgjafar og geri alltaf sitt besta til að gera dvöl gestanna sem ánægjulegasta.

„Það fer bara eftir því hvað hóparnir vilja. Sumir hópar eru að koma hingað í gegnum íslenskar lúxusferðaskrifstofur og þá er oft mikil þjónusta innifalin. Við vinnum þá hér sem gestgjafar og oftar en ekki er einkakokkar. Svo fáum við líka alveg hópa sem taka allt húsið á leigu, með engri aukaþjónustu. Þannig að þetta er mjög breiður skali. Stundum erum við líka að skipuleggja einhverja afþreyingu fyrir gestina, ef fólk vill fara í fjallgöngu eða í hjólaferð, þá reddum við því.“

Endurhugsuðu reksturinn

Fyrst um sinn hafi þau hjónin ekki verið með húsið mjög sýnilegt en nú eru þau að fikra sig áfram í markaðssetningu, segir Erla, innt eftir því.

„Við byrjuðum bara hægt og rólega um mitt ár 2019 og markaðssettum okkur eingöngu beint til íslenskra ferðaskrifstofa sem þjónusta mest svokallaða fágætisferðamenn. Svo skall kórónuveirufaraldurinn á og þá fór allt nánast í dvala.

Það kom sér vel hvað yfirbyggingin er lítil. Ég er eini starfsmaðurinn svo við gátum svolítið bara pakkað okkur saman. Auðvitað var þetta ekkert skemmtilegt en við notuðum tímann til að endurhugsa reksturinn og fara svo aftur af stað seinna, betur undirbúin og með skýrari sýn.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 23. nóvember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK