Áfram mikil hækkun launavísitölu

Grafarholtshverfi í Reykjavík.
Grafarholtshverfi í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Launavísitalan hækkaði um 0,5% milli september og október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,6%, sem er svipaður árstaktur og verið hefur síðustu mánuði. 

Launavísitalan hækkaði um 3,7% í janúar vegna  áfangahækkana í kjarasamningum og hefur hækkað nokkuð jafnt og þétt síðan, að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Hún hefur nú hækkað um samtals 7% á fyrstu tíu mánuðum ársins. Ekki hefur verið um almennar launahækkanir að ræða samkvæmt kjarasamningum síðan í janúar og kjarasamningsbundnar hækkanir verða næst í janúar 2022. Árshækkunartaktur launa hefur verið vel ofan við 7% allt frá því í október 2020 sem er töluvert hærra en hefur verið frá miðju ári 2017.

Verðbólga í október mældist 4,5% en árshækkun launavísitölunnar um 7,6%. Kaupmáttur launa jókst því um 3% þrátt fyrir óvenjumikla verðbólgu. Kaupmáttaraukning launa er því áfram nokkuð stöðug og mikil í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað eilítið frá því í janúar og var kaupmáttur launa í október 1% lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki.

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli ágústmánaða 2020 og 2021 sést að laun á almenna markaðnum hækkuðu um 6,3% á þessum tíma og um 11,3% á þeim opinbera; þar af 9,9% hjá ríkinu og 13,2% hjá sveitarfélögunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK