Svartur föstudagur settur í nýjan búning

Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa ákveðið að setja Svartan föstudag eða …
Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa ákveðið að setja Svartan föstudag eða „Black Friday“ í nýjan búning. AFP

Svokallaður svartur föstudagur eða „Black Friday“ hefur fest sig í sessi á Íslandi og eru sífellt fleiri íslensk fyrirtæki að taka upp þann sið að bjóða upp á afslætti af sínum vörum þennan dag. Sum þeirra hafa þó ákveðið að auglýsa tilboð sín á þessum degi undir nýju íslensku heiti.

Heimkaup er netverslun með höfuðstöðvar á Smáratorgi í Kópavogi.
Heimkaup er netverslun með höfuðstöðvar á Smáratorgi í Kópavogi.

Segir „Svartan fössara“ hafa lagst illa í fólk

Eitt þessara fyrirtækja er netverslunin Heimkaup en þau auglýsa sín tilboð undir yfirskriftinni „Myrkir markaðsdagar“. Inntur eftir því segir, Guðmundur Arnar Guðmundsson hjá Heimkaupum, nafnið vera vísun í tónlistarhátíðina Myrka músíkdaga.

„Okkur langaði til að vera með íslenska útgáfu af svörtum föstudegi, sem væri líka okkar og næði yfir alla vikuna. Þessi föstudagur er nefnilega orðinn ansi langur því hann nær frá mánudegi.“

Þá segir hann nafnið Svartur fössari, sem þessi tilboðsdagur hefur gjarnan verið kallaður á Íslandi, hafa lagst illa í fólk og að Heimkaup hafi hlotið mikið hrós fyrir að velja annað nafn.

„Íslendingar virðast taka Myrka markaðsdaga í mikla sátt og þeir hafa gengið geysilega vel nú í upphafi vikunnar.“

Icewear er með margar verslanir fyrir ferðamenn.
Icewear er með margar verslanir fyrir ferðamenn. mbl.is/Golli

Vildu vera aðeins öðruvísi en allir hinir

Þá hafa forsvarsmenn verslunarinnar Icewear, sem selur m.a. útivistarfatnað og ullavörur, einnig valið að fara aðrar leiðir í markaðssetningu sinni á tilboðum í tilefni föstudagsins svarta. Hjá IceWear eru tilboðin auglýst undir yfirskriftinni „Svartur Sauður“.

„Okkur langaði að vera aðeins öðruvísi og bjuggum því til okkar eigið „konsept“. Við erum með svo mikla ull í allskonar fatnaði og öðrum vörum hjá okkur þannig okkur fannst bara passa mjög vel að vera með Svartan Sauð. Svo snýr þetta líka að því að þetta er heil vika en ekki bara föstudagurinn,“ segir Bryndís Ragna Hákonardóttir, markaðsstjóri Icewear, í samtali við mbl.is.

Tilboðsdagarnir hafi hlotið góðar undirtektir viðskiptavina Icewear, bæði á Íslandi sem og erlendis, að sögn Bryndísar.

Spurð segir hún fyrirtækið ekki heldur auglýsa tilboðsdagana undir yfirskriftinni Black Friday á erlendri grundu.

„Við köllum þá bara Black Sheep.“

Fjöldi fólks flykkist í verslanir á svörtum föstudegi í bandaríkjunum …
Fjöldi fólks flykkist í verslanir á svörtum föstudegi í bandaríkjunum á ári hverju til að versla jólagjafir á tilboðsverði. PETER FOLEY

Svarta viðurnefnið á sér ýmsar skýringar

„Black Friday“ eða Svartur föstudagur á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1932 og markar hann upphaf jólaverslunar í Bandaríkjunum. Svarta viðurnefnið á deginum á sér ýmsar skýringar. Ein er sú að á þessum degi hafi hagnaðartölur verslana farið úr því að vera rauðar yfir í það að vera svartar, eða úr mínus og í plús.

Samkvæmt annarri eldri skýringu er liturinn vísun til þess að verkamenn hafi stundað að hringja sig inn veika í vinnunni þennan dag til að geta átt fjögurra daga helgi en föstudagurinn eftir þakkargjörðardaginn er ekki opinber frídagur og því svartur í dagatalinu frekar en rauður.

Aðrir vilja meina að nafnið vísi í umferðaröngþveitið sem skapast þegar allir flykkjast á sama tíma í verslanir til að ná sér í jólagjafir á góðu verði.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK