Afkoma ríkissjóðs batnar um 120 milljarða

Viðbrögð stjórnvalda gagnvart efnahagslegum áhrifum faraldursins hafi borið góðan árangur, …
Viðbrögð stjórnvalda gagnvart efnahagslegum áhrifum faraldursins hafi borið góðan árangur, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans. mbl.is/​Hari

Rúmlega 5% hagvexti er spáð á næsta ári og stefnir í að skuldir hins opinbera verði verulega lægri við lok stefnutímabilsins en útlit var fyrir við upphafi heimsfaraldursins. Þá er staða efnahagsmála betri og meiri kraftur í hagkerfinu en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2021.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Segir þar að viðbrögð stjórnvalda gagnvart efnahagslegum áhrifum faraldursins hafi borið góðan árangur en reiknað er með að stuðningur ríkissjóðs við hagkerfið muni nema um 260 milljörðum króna fyrir tímabilið 2020 – 2022.

Hallarekstur allt fram til 2026

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um 120 milljarða milli 2021 og 2022 og verði neikvæð um 169 milljarða króna en búist er við áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs allt fram til 2026. Þá er talið að heildartekjur ríkissjóðs verði 955 milljarða króna á næsta ári, en gert er ráð fyrir að tekjurnar aukist um 24% frá fjárlögum 2021 og verði þar með 182 milljörðum hærri árið 2022.

Bætta stöðu má meðal annars rekja til aukinna tekna af tekjuskatti lögaðila og einstaklinga, auk þess sem veltuskattar skila meiru, en reiknað er með að tekjur af sköttum á vöru og þjónustu aukist um 68 milljarða króna milli ára. Þá er líklegt að tekjur ríkissjóðs af arðgreiðslum tæplega þrefaldist, en það er um 23 milljarða aukning.

Heildargjöld ríkissjóðs hækka þó einnig um 2,2% frá fjárlögum 2021 og verða 1.124 milljarða króna.

Hægt er að nálgast Hagsjá Landsbankans í heild hér.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK