Flug yfir Grímsvötn yrði fjórfalt dýrara

Fjórfalt dýrara yrði að fljúga yfir gos í Grímsvötnum en …
Fjórfalt dýrara yrði að fljúga yfir gos í Grímsvötnum en yfir Geldingadali enda lengra að fara. mbl.is/Ragnar Axelsson

Þótt mikið hafi mætt á íslenskum þyrlufyrirtækjum þegar gosið í Geldingadölum stóð yfir segjast forsvarsmenn þeirra fyrirtækja rólegir yfir mögulegu gosi í einni virkustu eldstöð landsins, Grímsvötnum, inntir eftir því. Þeir séu þó til í slaginn ef og þegar að honum kemur.

„Við erum ekki farin að setja okkur í neinar sérstakar stellingar en þegar það fer að gjósa þá erum við strax tilbúin,“ segir Friðgeir Guðjónsson, framkvæmdastjóri þyrluþjónustunnar Helo, í samtali við mbl.is.

Tilbúin að stökkva af stað þegar kallið kemur

Að sögn Friðgeirs taki það enga stund fyrir fyrirtækið að setja upp ferðir eftir þörfum og að starfsmenn þess muni bara stökkva af stað þegar kallið kemur.

„Það er ekkert flóknara en það.“

Erfitt er þó að segja til um hvort það verður yfir höfuð hægt að fljúga yfir gos í Grímsvötnum og hve mikil eftirspurn verður eftir slíku flugi, segir hann inntur eftir því.

„Gos í Grímsvötnum eru ekkert endilega alltaf spennandi því þeim getur fylgt mikið öskufall svo það verður bara að koma í ljós hvort það verði hægt að bjóða upp á ferðir þar yfir.“

Helo gat þó boðið upp á flug yfir gosið í Eyjafjallajökli á sínum tíma þrátt fyrir að millilandaflug hafi legið niðri.

„Maður þarf bara að halda sig frá gosmekkinum,“ segir Friðgeir.

Þessi fagurbláa „EC130“ þyrla Norðurflugs fór ófáar ferðir yfir eldgosið …
Þessi fagurbláa „EC130“ þyrla Norðurflugs fór ófáar ferðir yfir eldgosið í Geldingadölum. Ljósmynd/Benjamin Hardman

Yrði allt annar leikur en gosið í Geldingadölum

Starfsmenn Norðurflugs virðast heldur ekki vera að stressa sig mikið yfir mögulegu gosi í Grímsvötnum, ef marka má orð Birgis Ómars Haraldssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Við tökum öllum þessum eldgosum bara eins og þau koma,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Fari að gjósa í Grímsvötnum í vetur yrði allt annar leikur að fljúga þar yfir heldur en yfir eldgosið í Geldingadölum. Gosið yrði sennilega stutt, dagsbirtan takmörkuð og veðurskilyrði önnur en á Reykjanesinu.

„Gosið í Geldingadölum var náttúrulega hálfgert draumagos. Kosturinn við það gos var hvað það var hægt að komast nálægt því og það er það sem fólk er að sækjast eftir. Það gos var eiginlega hálfger aumingi,“ segir hann og vísar þar í orð Magnús Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Inntur eftir því segist Birgir búast við einhverri aðsókn í flug yfir gos í Grímsvötnum, óháð því hvort hægt verði að fljúga yfir svæðið eða ekki. Þau flug þyrftu þó að vera á allt öðrum verðum heldur en flugin yfir eldgosið í Geldingadölum enda mun lengra að fara.

„Fólk væri kannski að borga um 200 þúsund krónur fyrir sætið sem er fjórfalt hærra verð en er á sætum í flug yfir gosið í Geldingadölum og það er ekkert víst að allir séu tilbúnir í það.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK