Sama vandamálið komi ekki upp oftar en einu sinni

Davíð Karl Wiium.
Davíð Karl Wiium.

Starfsemi eignaumsjónafélagsins GreenKey hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun árið 2014. Fyrirtækið sérhæfir sig í hvers kyns umsjón og umsýslu tengdri hótel- og gististaðarekstri auk þess að taka að sér umsjón með íbúðum í skammtímaleigu. Hefur GreenKey einkum sinnt höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandinu en nýverið færði félagið út kvíarnar og hóf starfsemi á Norðurlandi.

Davíð Karl Wiium segir markaðinn eiga mikið inni og er t.d. til mikils að vinna fyrir sumarhúsaeigendur að koma eignunum í útleigu til hafa af þeim einhverjar tekjur. „En það er hægara sagt en gert fyrir einstaklinga að leigja út sumarbústað og getur kallað á mikið umstang, skipulag og tíð samskipti við gesti. Þá þarf vitaskuld að þrífa og gera húsnæðið klárt á milli gesta og getur síminn hringt á öllum tímum sólarhringsins. Við leysum þennan vanda og erum með ræstingafólk til taks á sumarbústaðasvæðum, og með þjónustuver þar sem sérhæfðir starfsmenn svara í símann að degi sem nóttu.“

GreenKey sér um að reka heilu hótelin.
GreenKey sér um að reka heilu hótelin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð á og rekur GreenKey í félagi við nafna sinn Davíð Vilmundarson og Guðmund Árna Ólafsson. Spannar þjónustan allt frá því að halda utan um útleigu á sumarbústöðum útí á landi yfir í að halda utan um daglegan rekstur heilu hótelanna í Reykjavík.

Gestamóttakan orðin óþörf

Nálgun GreenKey gengur út á að nýta sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu sem víðast með það fyrir augum að nýta betur tíma allra starfsmanna og um leið bæta þjónustuna við gesti. GreenKey getur tekið að sér allan rekstur og utanumhald, eða aðeins sinnt afmörkuðum þáttum sé þess óskað, og bendir Davíð á að í krafti stærðarhagkvæmninnar eigi GreenKey auðveldara með að leysa ýmsar þær áskoranir sem koma upp í daglegum rekstri stórra sem smárra hótel- og gistiheimila, s.s. vegna veikindaforfalla.

„Ef við erum fengin til að taka að okkur rekstur hótels þá byrjar ferlið með heimsókn þar sem við förum í saumana á starfseminni og greinum í framhaldinu hvaða þjónustu þarf að veita og hverju má hugsanlega breyta til að bæta nýtingu og auka arðsemi,“ útskýrir hann. „Við sjáum líka um öll tæknimál, s.s. ef hótelið vantar vefsíðu, komum á tengingu við allar helstu hótelleitarvélar, og höldum utan um verðstýringu af mikilli nákvæmni.“

Lykilatriði, að sögn Davíðs, er að góð upplýsingagjöf eigi sér stað áður en gesturinn kemur svo hann m.a. viti upp á hár hvernig hann innritar sig sjálfur, og allt sé á hreinu varðandi hvers kyns viðbótarþjónustu eins og að fá aðstoð við að leigja bíl, panta borð á veitingastað eða bóka útsýnisferð. „Við vinnum eftir ákveðnum ferlum sem ganga út á það að ef vandamál kemur upp einu sinni þá endurtaki það sig ekki. Ef gestur reynist t.d. eiga í vanda með að finna sumarbústað sem hann tók á leigu þá er ekki nóg með að þjónustuverið hafi allar upplýsingar sem þarf til að leiðbeina honum á áfangastað heldur gætum við gripið til þess ráðs að senda upptökumann með dróna á staðinn til að gera myndband af öllu ferðalaginu frá rétta afleggjaranum, upp að bústað og inn á stofugólf, til að sýna þeim gestum sem á eftir koma.“

Gætu þurft að liðka fyrir veitingu leyfa

Það gengur hægar en vonir stóðu til að kveða kórónuveiruna í kútinn og er ferðaþjónustan sú grein sem farið hefur hvað verst út úr faraldrinum. Davíð segir þó flest benda til að erfiðasta skeiðið sé að baki, bókunarstaðan í kerfum GreenKey sýni að viðsnúningurinn hefur verið framar björtustu vonum. Þess gæti verið skammt að bíða að ferðamenn taki aftur að streyma til landsins með tilheyrandi eftirspurn eftir hótelherbergjum og Airbnb-íbúðum. Bendir Davíð á að ef stefnir í nýja uppsveiflu verði stjórnvöld að gæta þess að halda rétt á spilunum og hjálpa greininni að aðlagast aukinni eftirspurn. „Við sáum það í síðustu sprengingu í komum ferðamanna að leiga íbúða og herbergja í gegnum síður eins og Airbnb hjálpaði til við að bregðast við aukningunni, en nú er búið að setja þess háttar starfsemi þrengri skorður, svo að sækja þarf um rekstrarleyfi ef íbúð er leigð út í meira en 90 daga á ári. Einstaklingar reka sig á að það getur verið þrautinni þyngra að fá rekstraleyfi og eðlilegt að skoða hvort ekki megi veita aukið svigrúm, sér í lagi ef ljóst þykir að álagið á hótelum er orðið mikið og háannatími ferðaþjónustunnar tekinn að lengjast og teygja sig langt út fyrir sumarmánuðina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK