Stækka flugstöðina á Akureyrarflugvelli

Isavia Innanlandsflugvellir og Byggingafélagið Hyrna hafa undirritað samning um smíði …
Isavia Innanlandsflugvellir og Byggingafélagið Hyrna hafa undirritað samning um smíði viðbyggingar við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Isavia Innanlandsflugvellir og Byggingafélagið Hyrna hafa undirritað samning um smíði viðbyggingar við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

Kostnaður við verkið nemi rúmum 810 milljónum

Samningsupphæðin fyrir verkið er 810,5 milljónir króna. Það voru þau Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, og Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Hyrnu, sem undirrituðu samninginn í flugstöðinni á Akureyrarflugvelli í dag.

Í verkáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok mars næstkomandi og þeim verði lokið í byrjun ágúst 2023.

Þá er verkefninu skipt niður í þrjá áfanga. Sá fyrsti snýr að nýrri viðbyggingu við flugstöðina. Í öðrum áfanga verður núverandi komusvæði flugstöðvarinnar endurbyggt og þar er áætlað að nýtt innritunarsvæði verði. Nýtt skyggni og töskubílskýli verður þá einnig byggt með tilheyrandi malbikun. Í þriðja og síðasta áfanga verða núverandi innritunarsvæði og skrifstofuhluti endurbyggð.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, og Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri …
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, og Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Byggingafélagsins Hyrnu. Ljósmynd/Aðsend

Segir þjónustu við farþega munu batna til muna

Haft er eftir Sigrúnu Björk að það sé afar ánægjulegt að taka þetta næsta og mikilvæga skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar. Um sé að ræða stórt verkefni, nánar tiltekið 1.100 fermetra viðbyggingu við flugstöðina og um leið bætta aðstöðu fyrir lögreglu, toll, fríhöfn og veitingastað.

„Þjónusta við farþega og flugfélög batnar til muna og við hlökkum til að taka þessa breyttu og bættu flugstöð í gagnið síðsumars 2023.“

Þá er haft eftir Erni að þau hjá Hyrnu séu afar spennt að hefjast handa við þetta mikilvæga verkefni. Verkáætlun liggi fyrir og starfsfólk Hyrnu sé reiðubúið að setja allt í gang.

„Það er einkar ánægjulegt að taka þátt í að hleypa þessu verkefni af stokkunum hér í dag. Þetta er eitt af mínum síðustu verkefnum hjá Hyrnu nú þegar ég læt af störfum um áramótin eftir rúmlega fimm áratuga starf. Það verður ánægjulegt að sjá þessa stækkun rísa.“

Meiriháttar framfaraspor

Um samninginn hafði Ásthildur Sturludóttur, bæjarstjóri á Akureyri, þetta að segja í stuttu samtali við mbl.is:

„Loksins eygjum við þessa framkvæmd sem verður meiriháttar framfaraspor fyrir Akureyri, Norðurland og landsbyggðina alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK