Heildarveltan í fyrra rúmlega þúsund milljarðar

Fjöldi viðskipta hefur ekki verið meiri á einu ári í …
Fjöldi viðskipta hefur ekki verið meiri á einu ári í hálfan annan áratug. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Heildarviðskipti með hlutabréf í kauphöllinni á liðnu ári námu 1.071 milljarði króna eða 4.285 milljónum á dag. Heildarveltan árið áður nam 602 milljörðum og jókst hún því um 77% milli ára. Fjöldi viðskipta á liðnu ári var 100.917 alls og fjölgaði um 79% milli ára. Fjöldinn er sá mesti í ein 14 ár.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nasdaq Iceland, þar sem segir einnig að bréf Arion banka hafi hækkað mest á síðasta ári eða um 100,5%. Þar á eftir hækkuðu bréf Eimskipafélagsins um 95,7% og bréf Origo um 80,5%. Aðeins bréf í tölvuleikjaframleiðandanum Solid Clouds lækkuðu. Lækkunin nam 26,6% en félagið fór á First North-markað kauphallarinnar á síðasta ári.

Síðasta ár „kaflaskil“

Mest viðskipti voru með bréf Arion banka á liðnu ári (259,8 milljarðar króna), Marel (119,9 milljarðar króna), Kviku banka (107,3 milljarðar króna), Símans (75,2 milljarðar króna) og Festi (62,6 milljarðar króna).

Flest viðskipti voru með bréf Icelandair Group (22.546), Íslandsbanka (13.801), Arion banka (10.844), Marel (7.850) og Kviku banka (6.658).

„Árið 2021 markaði greinileg kaflaskil fyrir íslenska markaðinn,“ er haft eftir Finnboga Rafni Jónssyni, forstöðumanni viðskipta og viðskiptatengsla kauphallarinnar, í tilkynningunni.

„Fjórar spennandi nýskráningar á hlutabréfamarkaðinn settu tóninn fyrir áframhaldandi innkomu almennra fjárfesta, sem létu sjá sig svo um munaði í öllum hlutafjárútboðum. Nefna má sérstaklega útboð Íslandsbanka sem var stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar með þátttöku um 24 þúsund fjárfesta. Á árinu varð tæplega 80% aukning í fjölda viðskipta og fjárfestar nutu góðrar ávöxtunar þar sem Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um þriðjung á árinu. Stærð markaðarins jókst þar með um tvo þriðju á árinu. Allt þetta og meira hefur sett íslenska hlutabréfamarkaðinn á kortið hjá erlendum vísitölufyrirtækjum að auki. Þannig eru líkur á að markaðurinn færist upp um gæðaflokkun á nýju ári sem myndi laða að enn fleiri erlenda fjárfesta og aukið fjármagn, íslenskum fyrirtækjum og markaðnum í heild sinni til hagsbóta,“ var einnig haft eftir honum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK