Afmælisbarnið þriggja billjóna virði

Tim Cook kynnir þarsíðustu uppfærslu hins geysivinsæla iPhone sem er …
Tim Cook kynnir þarsíðustu uppfærslu hins geysivinsæla iPhone sem er eitt af krúnudjásnunum í framleiðslu fyrirtækisins. Ljósmynd/AFP

Bandaríski tæknirisinn Apple, sem stofnað var árið 1977 af Steve Jobs, Steve Wozniak og Ronald Wayne, rauf fyrst allra fyrirtækja 3 billjóna dollara múrinn á mörkuðum í gær.

Þessum áfanga náði fyrirtækið sléttum 45 árum eftir að það var skráð í fyrirtækjaskrá Bandaríkjanna. Frá þessu greindi Chris Espinosa, sem var áttundi starfsmaður fyrirtækisins og sá sem starfað hefur lengst á vettvangi þess.

Jafngildir virði fyrirtækisins því ríflega 400 þúsund milljörðum íslenskra króna. Til þess að setja verðmæti fyrirtækisins í samhengi er það meira en landsframleiðsla Bretlands sem nam 2,7 billjónum dollara árið 2020.

Virði Apple hefur risið á ógnarhraða síðustu misseri. Það náði 1 billjónar markinu í ágúst 2018 og tveimur árum síðar varð það fyrsta fyrirtækið í sögunni til þess að rjúfa 2 billjóna múrinn. Sextán mánuðum síðar hefur virðið svo náð nýjum hæðum og í gær hækkuðu bréf þess nægilega mikið til þess að sigla því yfir 3 billjóna markið.

Örfá fyrirtæki í sérflokki

Líkt og Financial Times greinir frá við þessi tímamót eru aðeins örfá fyrirtæki sem metin eru á meira en 1 billjón dollara. Tesla og Amazon eru í þeim hópi og þá eru Alphabet og olíurisinn Saudi Aramco metin á u.þ.b. 2 billjónir dollara. Næst Apple að verðmæti er tæknirisinn Microsoft sem metinn er á 2,5 billjónir dollara. Á síðustu mánuðum hefur hann raunar velkt Apple undir uggum og í október hrifsaði fyrirtækið, sem stofnað var af Bill Gates og Paul Allen 4. apríl 1975, til sín titilinn sem verðmætasta fyrirtæki í heimi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK