700 milljarða samdráttur

Af eign landsmanna í innlendum hlutabréfum voru greiddir 44,4 milljarðar …
Af eign landsmanna í innlendum hlutabréfum voru greiddir 44,4 milljarðar króna í arð. mbl.is/sisi

Útlit er fyrir að tekjur fyrirtækja í landinu hafi minnkað um 708 milljarða króna á árinu 2020 samanborið við árið á undan, eða um 13,1%. Þetta kemur fram í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra.

Þar kemur fram að samanlagðar rekstrartekjur fyrirtækja hafi verið 4.683 milljarðar árið 2020 en þar af var virðisaukaskattsskyld velta 2.826 milljarðar, 303 milljörðum eða 9,7% lægri en árið 2019. „Velta undanþegin virðisaukaskatti var 1.304 milljarðar, 241 milljarði eða 15,6% minni en árið áður, en hér er aðallega um að ræða útflutning, og þá var velta í undanþeginni starfsemi 565 milljarðar, 162 milljörðum eða 22,3% minni en árið áður,“ segir í blaðinu.

506 milljarða hagnaður

Samanlagður hagnaður fyrirtækja árið 2020 var 506 milljarðar samkvæmt samantekt Tíundar, en hagnaður varð af rekstri 18.832 fyrirtækja. Tap varð hinsvegar af rekstri 21.885 fyrirtækja, en samtals nam það 271 milljarði og jókst um 64 milljarða.

Í blaðinu segir að á sama tíma minnkaði hagnaður fyrirtækja um 57 milljarða á milli ára.

735 færri fyrirtæki voru rekin með hagnaði af rekstri árið 2020 en árið 2019, en 1.644 fleiri fyrirtæki voru rekin með tapi.

Í blaðinu kemur fram að fyrirtækin sem rekin voru með hagnaði voru samanlagt með 3.698 milljarða í rekstrartekjur en um 86,3% rekstrartekna fór í gjöld, sem sé svipað hlutfall og á undanförnum árum.

2.331 rekið á núlli

2.331 fyrirtæki var rekið á núlli samkvæmt samantektinni en samanlagðar rekstrartekjur þessara fyrirtækja voru rúmur milljarður.

Þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnsliða var hagnaður samkvæmt ársreikningi hjá 18.667 fyrirtækja og var samanlagður hagnaður fyrirtækjanna 652 milljarðar. Fyrirtæki sem rekin voru með hagnaði voru 444 færri en fyrir ári. „Tap varð af 2.020 fyrirtækjum, sem er reyndar ekki nema einu fyrirtæki fleira en fyrir ári, en samanlagt tap var 676 milljarðar. Hagnaðurinn minnkaði um 55 milljarða eða 7,8% en tapið var hins vegar 375 milljörðum eða 124,6% meira en árið áður.“

Í blaðinu segir svo að heildarniðurstaðan hafi verið neikvæð um 23 milljarða. Þá segir að þetta sé í fyrsta skipti síðan 2010 sem tap íslenskra félaga sé meira en hagnaðurinn.

Nærri 17 þúsund milljarðar

Þegar horft er til eigna og skulda voru samanlagðar eignir fyrirtækja sem rekin eru í hagnaðarskyni 16.672 milljarðar en útlit er fyrir að eignir fyrirtækja hafi minnkað um 633 milljarða milli ára samkvæmt Tíund.

Á móti eignum stóðu skuldir upp á 10.593 milljarða. Skuldirnar jukust um 86 milljarða eða 0,8%.

Samanlagt eigið fé félaganna var 6.079 milljarðar. „Eigið fé var í 27.817 félögum en eignir 14.337 félaga dugðu ekki fyrir skuldum. Skuldir umfram eignir voru 686 milljarðar, samanborið við 711 milljarða í árslok árið 2019. Á þeim tíma var eigið fé fyrirtækja 7.509 milljarðar og þá áttu 27.368 fyrirtæki eigið fé.“

12,1 milljarður frá útlöndum

Í Tíundinni er einnig fjallað um fjármál einstaklinga og meðal annars segir að landsmenn hafi verið með 12,1 milljarð króna í tekjur frá útlöndum árið 2020, sem var 359 milljónum, eða 3,1% meira en árið áður.

Í blaðinu kemur fram að 4.859 manns voru með tekjur erlendis árið 2020, 89 fleiri en árið áður.

Hlutabréfaeign einstaklinga í íslenskum félögum var metin á um 73,6 milljarða að nafnverði í árslok 2020. Eignin var 6,6 milljörðum króna eða 9,9% meiri en á sama tíma fyrir ári.

Af eign landsmanna í innlendum hlutabréfum voru greiddir 44,4 milljarðar í arð en 8.660 fjölskyldur töldu fram arð af innlendum hlutabréfum.

Arður af erlendum hlutabréfum var 9,6 milljarðar árið 2020 sem

er að mati Tíundar meira en nokkru sinni fyrr. Nú töldu 630

fjölskyldur fram slíkar greiðslur.

„Arður af erlendum hlutabréfum var 8,4 milljörðum meiri en árið 2019 og 186 fleiri fjölskyldur fengu greiddan arð. Hér er því um mjög mikla aukningu á arði af erlendum hlutabréfum að ræða,“ segir í Tíund að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK