Jólavertíðin góð þrátt fyrir Ómíkron

Nýtt afbrigði veirunnar og sóttvarnaraðgerðir virðast ekki hafa haft mikil …
Nýtt afbrigði veirunnar og sóttvarnaraðgerðir virðast ekki hafa haft mikil áhrif á venjur fólks í desembermánuði. mbl.is/Eggert

Nýtt afbrigði veirunnar og sóttvarnaaðgerðir virðast ekki hafa haft mikil áhrif á venjur fólks í desembermánuði. Neyslan mældist meiri en í hefðbundnum desembermánuði fyrir faraldur. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Eyddu tæplega 92 milljörðum í verslun og þjónustu

Samanlagt jókst kortavelta um 14% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands tæplega 92 milljörðum króna og jókst um 6% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam tæplega 18 milljörðum og jókst um 90% milli ára miðað við fast gengi.

Í október og nóvember mældist aukningin heldur meiri, eða 20% alls milli ára í nóvember og 24% í október. Það kunni að vera að fjölgun smita með tilkomu Ómíkron-afbrigðis veirunnar í byrjun desember hafi dregið eitthvað úr neyslu í mánuðinum. Það sé þó erfitt að fullyrða um slíkt þar sem neyslan mælist heldur meiri en í desember 2019, bæði innanlands og erlendis. Innanlands mælist aukningin 11% miðað við desembermánuð 2019 og erlendis 4% að raunvirði.

Graf/Landsbankinn

Ný bylgja faraldursins hefur haft misjöfn áhrif

Kortavelta eftir útgjaldaliðum sýnir að aukningin milli ára er meiri í kaupum á þjónustu en vörum. Kaup Íslendinga á þjónustu ferðaskrifstofa nær þrefaldaðist milli ára í desember, sem sé þó minnsti vöxtur milli ára síðan í ágúst og mögulega til marks um að hertar sóttvarnaraðgerðir um heim allan hafi dregið úr ferðaáhuga fólks. Sé miðað við desember 2019 mælast kaup á þjónustu ferðaskrifstofa 20% minni.

Sóttvarnaraðgerðir innanlands virðast ekki hafa dregið mikið úr ásókn Íslendinga á veitingastaði þar sem kortaveltan mældist 5% meiri en í desember 2019 miðað við fast verðlag. Kaup á þjónustu frá menningarstarfsemi mældist þó 15% minni en í desember fyrir faraldur og því misjafnt hvernig ný bylgja faraldursins rétt fyrir jól lagðist á ólíka útgjaldaliði. Mögulega eigi áhrifin eftir að verða skýrari í janúar þar sem smitum hefur fjölgað mikið frá jólum.

Graf/Landsbankinn

Vísbendingar eru um aukinn vöxt einkaneyslu

Á fjórða ársfjórðungi jókst kortavelta alls um tæp 19% milli ára. Þróun kortaveltu er ágætis vísbending um þróun einkaneyslunnar. Á þriðja ársfjórðungi jókst kortavelta um 11,5% milli ára og einkaneysla um 6,1% og megi því gera ráð fyrir talsverðum vexti einkaneyslu á fjórða ársfjórðungi.

Þegar árið í heild er skoðað sést að kortavelta Íslendinga nam alls 1.093 milljörðum króna á verðlagi og gengi desembermánaðar 2021 og mælist 12% meiri en árið 2020 og 5% meiri en árið 2019. Allt árið í fyrra mældist uppsöfnuð kortavelta meiri en árið 2020, ef frá eru taldir janúar og febrúar.

Það var svo um mitt árið sem uppsöfnuð kortavelta tók fram úr samsvarandi veltu árið 2019, enda voru margir þá fullbólusettir, farið var að létta á sóttvarnaraðgerðum innanlands og ferðalög til útlanda urðu algengari. Uppsöfnuð kortavelta Íslendinga erlendis nam alls 157 mö.kr. á árinu og jókst um 40% milli ára, en mældist 23% lægri en á árinu 2019.

Enn ríkir mikil óvissa um framhaldið

Það er ekki að sjá annað af þessari umfjöllun en að neysla mælist nokkuð kraftmikil, þrátt fyrir nýtt afbrigði veirunnar og hertar aðgerðir, að því er greint frá í Hagsjánni. Það verði því fróðlegt að sjá hvert framhaldið verður. Vöxturinn hafi á síðustu mánuðum verið drifinn áfram af auknum þjónustukaupum og ferðalögum til útlanda, og þegar Hagsjáin var rituð ríkti mikil óvissa um framhald sóttvarnaraðgerða, innanlands sem erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK