15,4% dýrara að kaupa húsnæði

Greiðslubyrði óverðtryggðra lána hefur hækkað um 13,4% frá því í …
Greiðslubyrði óverðtryggðra lána hefur hækkað um 13,4% frá því í vor. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meðalkaupverð íbúða á landinu öllu hækkaði um 7,7 milljónir á síðastliðnu ári. Það stóð í 50,8 milljónum í nóvember árið 2020 en var komið upp í 58,5 milljónir í nóvember í fyrra. Þá mældist árshækkun íbúðaverðs á tímabilinu 15,4%. Bæði fjöldi einbýla og íbúða í fjölbýli sem eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu er nú í sögulegu lágmarki.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

„Í fyrstu vikunni í janúar voru 487 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem er 20,2% minna en 1. desember sl. fyrir rétt rúmum mánuði síðan,“ segir í skýrslunni. „Fyrir tæpum tveimur árum, nánar til tekið í maí 2020, var fjöldi þeirra um 2.200.“

Í skýrslunni kemur fram að met hafi fallið í nóvember þegar  43,6% allra seldra íbúða í Reykjavík seldust yfir ásettu verði. Hjá nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var met einnig slegið þegar 26,9% íbúða seldust yfir ásettu verði en hlutfallið var tæp 17% í október og rúm 21% í september.

Þá hefur kaupsamningum fækkað undanfarið. 

„Í nóvember sl. voru gefnir út 1.024 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði á landinu öllu samanborið við 982 í október. Það gerir um 17% færri kaupsamningar en voru á sama tíma árið 2020. Veltan hefur hins vegar aðeins dregist saman um 5,2% enda hefur meðalkaupverð hækkað um 15,1%. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins voru kaupsamningar 200 talsins sem er met fyrir desembermánuð og sömu sögu er að segja annars staðar á landsbyggðinni þar sem fjöldi kaupsamninga var 193,“ segir í skýrslunni. 

Bankarnir bjóða ekki lengur best

Þar er einnig snert á lánakjörum og kemur þar fram að viðskiptabankarnir bjóði ekki lengur upp á lægstu óverðtryggðu vextina. 

„Lengi vel buðu bankarnir uppá lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum en það hófst mikil sókn í óverðtryggð lán hjá þeim þegar meginvextir Seðlabankans lækkuðu umtalsvert árið 2020. Hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána af heildaríbúðalánum hélt áfram að aukast í nóvember. Nú eru viðskiptabankarnir ekki lengur með lægstu óverðtryggðu vextina á íbúðalánum þar sem Gildi og Lífeyrissjóður Verslunarmanna eru nú með lægri vexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Annað sem stóð upp úr á lánamarkaði var að óverðtryggð útlán lífeyrissjóðanna voru hærri en uppgreiðslur í fyrsta skipti í 18 mánuði.“

Greiðslubyrði hefur aukist

Þá greinir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frá því í skýrslu sinni að greiðslubyrði óverðtryggðra lána hafi hækkað um 13,4% frá því í vor. 

„Greiðslubyrði á óverðtryggðum lánum frá bönkum eru nú 42.200 kr. á hverjum 10 m.kr. sem teknar eru að láni miðað við lægstu vexti sem bjóðast á en meðan greiðslubyrði fór lægst í 37.300 í á fyrstu fimm mánuðum ársins í fyrra. Vextir eru þó enn frekar lágir og til samanburðar þá var greiðslubyrðin 53.900 kr. á hverjar 10 m.kr. lánaðar fyrir þremur árum og 60.900 kr. fyrir fimm árum. Greiðslubyrði á verðtryggðu láni er 27.700 kr. á hverjar 10 m.kr. lánaðar og hefur farið lækkandi því hún var 29.700 kr. í nóvember sl. og 35.000 kr. í nóvember 2019.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK