Staðfesta ekki virkni laganna

mbl.is/Hari

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið telur að svar þess til Morgunblaðsins um virkni póstlaga hafi verið slitið úr samhengi. Hins vegar vill ráðuneytið ekki staðfesta að það telji að viðkomandi lagaákvæði séu virk.

Málið varðar frétt sem birtist í Morgunblaðinu 4. mars í fyrra en þar sagði í undirfyrirsögn að ráðuneyti segði lagaákvæði óvirkt.

Nánar tiltekið 3. mgr. 17. gr. póstlaga um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli endurspegla raunkostnað að viðbættum hæfilegum hagnaði.

Fréttin byggðist á svari ráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins.

Grunur um undirverðlagningu

Hefur umrætt lagaákvæði verið til umræðu vegna meintrar undirverðlagningar Póstsins á pakkasendingum innanlands. Gjaldskrár hafi ekki endurspeglað raunkostnað.

Fram kom í erindi Félags atvinnurekenda til umboðsmanns Alþingis fyrr í þessum mánuði að félagið hefði í tilefni af umræddri frétt Morgunblaðsins sent fyrirspurn til sama ráðuneytis í mars sl.

Í svari ráðuneytisins hafi komið fram að það teldi að í áðurnefndri frétt hafi í raun verið sagt frá afstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar í málinu en ekki afstöðu ráðuneytisins.

Af þessu tilefni sendi Morgunblaðið þrjár spurningar til ráðuneytisins sl. þriðjudag. Spurt var um afstöðu til þess þess hvort 3. mgr. sé virk eða óvirk, hvort lög geti talist óvirk og ef svo væri að það yrði þá rökstutt.

Samkvæmt svari ráðuneytisins í fyrradag telur það að fyrra svar þess til blaðsins hinn 4. mars í fyrra hafi verið „tekið [...] úr samhengi þar sem ráðuneytið vísaði til mats þáverandi Póst- og fjarskiptastofnunar. Svar ráðuneytisins hefði mátt vera orðað með afgerandi hætti.“

Þegar þetta svar barst var fyrirspurn ítrekuð um hvort ráðuneytið teldi að lög geti verið óvirk en svar hafði ekki borist í gær.

Kallað eftir endurskoðun

Eftirlit með póstlögum færðist frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar 1. nóvember síðastliðinn. Daginn eftir fól ráðuneytið Byggðastofnun að vinna að endurskoðun á skilgreiningu virkra og óvirkra markaðssvæða á sviði póstþjónustu með hliðsjón af samkeppni. En í fyrri ákvörðun PFS um aukafjárveitingar til Póstsins vegna rekstrarársins 2020 var ekki tekið tillit til samkeppni heldur eingöngu fjölda lúga á hverju svæði fyrir sig.

Þá skipaði samgönguráðuneytið starfshóp sem falið var „það hlutverk að meta hvernig best megi ná markmiðum 1. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019 um alþjónustu, m.a. með hliðsjón af tækninýjungum, samkeppnissjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands“. En með alþjónustu er vísað til þeirrar lágmarkspóstþjónustu sem notendum póstþjónustu skal standa til boða á jafnræðisgrundvelli, skv. lögum um póstþjónustu. Markmiðið með vinnu hópsins var m.a. að tryggja heilbrigða samkeppni á svæðum þar sem ekki væri markaðsbrestur.

Fyrst lögð fyrir nefndina

Ísólfur Gylfi Pálmason var formaður starfshópsins en hann var fulltrúi samgönguráðherra.

Ísólfur Gylfi sagði í samtali við Morgunblaðið að skýrsla starfshópsins yrði ekki opinberuð fyrr en búið væri að leggja hana fyrir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hann ætti von á því að skýrslan yrði lögð fyrir þingið í næstu viku. Hún yrði ekki afhent fjölmiðlum áður.

Áðurnefnd endurskoðun Byggðastofnunar fékkst heldur ekki afhent hjá samgönguráðuneytinu.

Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK