Tekjumet hjá Apple

Ársfjórðungslegar tekjur Apple hafa aldrei verið meiri.
Ársfjórðungslegar tekjur Apple hafa aldrei verið meiri. NICHOLAS KAMM

Bandaríski tölvurisinn Apple tilkynnti í gær um tekjumet á fyrsta fjórðungi 2022, sem lauk 25. desember 2021. Niðurstaðan var umfram spár greiningaraðila en meginástæða velgengninnar er mikil eftirspurn eftir iPhone 13 símanum og þjónustu, eins og segir í frétt Yahoo.

Þetta gerist þrátt fyrir erfiðleika við framleiðslu á hálfleiðurum í heiminum, og tafa í aðfangakeðjum heimsins. Hálfleiðaraskorturinn leiddi til sex milljarða dala minni tekna Apple á fjórða ársfjórðungi 2021.

16.200 milljarðar íslenskra króna

Á Yahoo segir að tekjur Apple á fjórðungnum hafi verið 124 milljarðar Bandaríkjadala, tæplega 16.200 milljarðar íslenskra króna, en greiningaraðilar höfðu spáð 119 milljarða tekjum. Hækkunin milli ára nemur ellefu prósentum.

Hagnaður á hlut var 2,1 dalur sem var umfram spár upp á 1,9 dali á hlut.

Séu tekjurnar brotnar niður á einstaka vöruflokka þá seldust iPhone símar fyrir 71,6 milljarð, iPad spjaldtölvur fyrir 7,2 milljarða, Mac tölvur fyrir 10,8 milljarða og svokölluð „Wearables“ eins og snjallúr ofl. fyrir 14,7 milljarða dala.

Þá seldi Apple þjónustu fyrir 19,5 milljarða dala.

Allir framangreindir liðir voru umfram spár sérfræðinga, nema að iPad sala var lítið eitt minni en greiningaraðilar höfðu séð fyrir sér.

Framsæknari vörur og þjónusta

Tim Cook forstjóri Apple sagði í tilkynningu að niðurstaðan væri því að þakka að fyrirtækið byði nú upp á framsæknari vörur og þjónustu en nokkru sinni áður.

„Við erum ánægð að sjá viðbrögð okkar viðskiptavina um allan heim á tímum þar sem tengsl hafa aldrei verið mikilvægari,“ sagði Cook.

Gengi hlutabréfa Apple á eftirmarkaði Nasdaq tók kipp við tíðindi í gær, en gengið í lok viðskipta í kauphöllinni var 159,22 dalir á hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK