Play styrkir flotann

Play mun notast við sex flugvélar í sumar.
Play mun notast við sex flugvélar í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Flugfélagið Play hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um leigu á A321 flugvél og hefur þar með tryggt sér samtals tíu flugvélar. Mun nýja vélin verða tilbúin til afnota félagsins áður en það hefur flug til Bandaríkjanna í apríl en félagið hyggst notast við sex vélar í sumar.

Þetta kemur fram í tilkynningu Play.

Miðasalan til Ameríku hefur farið vel af stað en fleiri eru nú í ferðahugleiðingum en áður og hefur bókunarstaðan styrkst mikið milli mánaða. Til marks um það voru daglegar bókanir í janúar þrisvar sinnum hærri samanborið við desember, að því er fram kemur í tilkynningunni. 

Þá jókst sætanýting einnig um 2,5 prósentustig milli mánaða en hún var 55,7% í janúar og 53,2% í desember, en flugfélagið flutti samtals 13.488 farþega í síðasta mánuði. 

Flugfélagið hefur nú skrifað undir viljayfirlýsingu um leigu á A321neo flugvél og hefur því tryggt sér alls tíu flugvélar. Fimm A321 vélar og fimm A230 vélar. 

Í sumar hyggst Play notast við sex flugvélar og verða þær enn fleiri það næsta, eða alls 10.

Lægstu fargjöldin

Boðið verður upp á daglegt flug til New York sem hefst í júní þar sem flogið verður til New York Stewart International flugvallar. Verður Play eina flugfélagið sem býður millilandaflug til og frá vellinum.

Lendingargjöld þar eru 80% ódýrari en á öðrum flugvöllum og getur Play því boðið upp á lægstu fargjöldin milli New York og Evrópu.

Auk New York flýgur Play einnig til tveggja annarra áfangastaða í Bandaríkjunum, Baltimore/Washington, D.C. og Boston. 

„Janúar er alla jafna krefjandi mánuður í fluggeiranum og þess heldur á tímum heimsfaraldurs. Það gleður okkur því að sjá hækkandi sætanýtingu á milli mánaða en í venjulegu árferði væri sætanýting hærri í desember miðað við janúar en ekki öfugt. Það er einnig mjög hvetjandi að fylgjast með góðum viðtökum á nýjum áfangastöðum félagsins og sterkri bókunarstöðu inn í sumarið.

Í vor munum við auka starfsemi okkar umtalsvert með nýjum flugvélum, nýjum áfangastöðum í Evrópu og að sjálfsögðu nýjum flugleiðum yfir Atlantshafið. Vegna jákvæðrar þróun í viðskiptaumhverfi okkar, dvínandi áhrifa kórónuveirufaraldursins á hegðun fólks og ört vaxandi eftirspurnar er ég fullviss um að við séum að auka framboð á hárréttum tímapunkti,” er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK