Snjallsími greinir aksturslag til að lækka iðgjöld

Bílar á ferð um Miklubraut.
Bílar á ferð um Miklubraut. mbl.is

Með því að nota snjallforrit íslenska sprotafyrirtækisins Verna ættu neytendur að geta lækkað iðgjöld ökutækjatrygginga sinna um allt að 40%. Verna er fjártæknifélag á tryggingarmarkaði en snjallforritið notar þau mælitæki sem eru í farsímum til að greina aksturslag og akstursvenjur notandans. Er varan sett á markað í samstarfi við TM.

Friðrik Þór Snorrason er forstjóri Verna: „Forritið okkar tengist við nema í símanum og gefur einkunn fyrir fimm þætti: mýkt aksturs, einbeitingu við akstur, hvort ekið er hraðar eða hægar en bílarnir í kring, hvort ekið er að nóttu eða degi til, og hvort ekið er í mjög langan tíma í senn,“ útskýrir Friðrik. „Öll viðkvæm persónugreinanleg gögn eru geymd á síma notandans og það eina sem forritið sendir okkur er einkunnin sem reiknuð er út frá mæliþáttunum fimm.“

Friðrik Snorrason.
Friðrik Snorrason. Ljósmynd/Aðsend

Hreyfiskynjarar og GPS-búnaður símans greina aksturslag, s.s. ef ekið er mjög hratt eða hægt, eða rykkjótt, og eins vaktar forritið hvort verið er að tala í síma eða senda skilaboð á meðan ekið er.

Að sögn Friðriks sýna mælingar að stór hluti ökumanna greiðir hærri iðgjöld en aksturslag þeirra og hegðun í umferðinni gefur tilefni til. „Flestir eru mun betri ökumenn en þeir gera sér grein fyrir. Þegar ökuskor Verna er lagt ofan á hið hefðbundna áhættumat tryggingafélaganna kemur í ljós að einhvers staðar á bilinu 70 til 80% fólks borga of há iðgjöld fyrir ökutækjatryggingar. Með ökuskori Verna er hægt að meta af meiri nákvæmni hversu líklegur einstaklingurinn er til að lenda í óhappi í umferðinni.“

Hafa prófanir Verna leitt í ljós að dæmigerður notandi snjallforritsins getur vænst um 20% afsláttar af iðgjöldum en með því að vanda sig enn betur við aksturinn og lágmarka áhættuþætti má ná fram allt að 40% sparnaði.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK