Bjart fram undan hjá bílaleigum

Fleiri hleðslustöðvar vantar við flugstöðina svo hægt sé með góðu …
Fleiri hleðslustöðvar vantar við flugstöðina svo hægt sé með góðu móti að afhenda rafbíla þar í einhverjum mæli. Kristinn Magnússon

Betra hljóð er í forsvarsmönnum bílaleiga nú en verið hefur um langa hríð og útlitið bjart. Þó eiga leigurnar í ákveðnum erfiðleikum við að fá nægilega mikið af nýjum bílum og sumar bíltegundir eru hreinlega ófáanlegar. Einn eigandi bílaleigu sagði að mikil endurnýjunarþörf væri í bransanum og flotinn hefði almennt elst hjá öllum bílaleigum. Stríðið í Úkraínu hafi einnig áhrif vegna íhluta í bíla sem þar eru framleiddir. „Bílaleigubransinn þarf nú á einu stóru sumri að halda til að komast á núllið. Það er ekki mikið eigið fé í bransanum eftir faraldurinn,“ sagði viðmælandinn.

Aldrei jafn sterk bókunarstaða

Sigfús B. Sigfússon, forstjóri bílaleigunnar Hertz, segir að staðan sé mjög góð. „Við höfum aldrei séð jafn sterka bókunarstöðu og fyrir komandi tímabil og fyrir haustið líka. Leigutíminn er líka að lengjast. Fólk vill greinilega dvelja lengur í landinu en áður,“ segir Sigfús.

Spurður um hvaðan viðskiptavinirnir komi segir hann þá koma alls staðar að. Bandaríkjamenn séu þó meira áberandi en aðrir enda þekki þeir Hertz-vörumerkið vel.

Aðspurður segir Sigfús að verð á bílum hafi hækkað mikið. Bílaframleiðendur framleiði meira af dýrari bílum. Því sé skortur á minni og ódýrari bílum.

Afleiðing þess að bílaleigurnar fá ekki þann fjölda bíla sem þær þurfa er hærra leiguverð. Um það eru allir viðmælendur blaðsins sammála. 

Bókunarfyrirvarinn hefur lengst

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, er einnig bjartsýnn á sumarið. Hann segir bókunarstöðuna fína. „Það eru fleiri að bóka nú en á sama tíma í fyrra. Mars var mjög góður og apríl líka. Maí og júní eru líka orðnir mjög vel bókaðir. Bókunarfyrirvarinn hefur líka lengst. Í fyrra var hann núll til sex vikur hámark en núna er hann núll til tólf vikur. Fyrir tveimur mánuðum var lítið búið að bóka inn í júlí og ágúst en nú eru þeir orðnir mjög vel bókaðir þótt enn sé gott svigrúm til aukningar þar. Það stefnir í mjög gott og annasamt sumar.“

Seldu mikið í faraldrinum

Axel Gómez framkvæmdastjóri Avis segir bókunarstöðuna nokkuð góða. „Við eins og aðrir seldum mikið af bílum í faraldrinum og súpum seyðið af því núna. Það hafa dregist afhendingar á nýjum bílum en við erum vongóð um að það fari að lagast,“ segir Axel.

Hann segir að fyrir faraldurinn hafi Avis verið með 4.000 bíla í útleigu en sé nú komin niður í 2.800 bíla. Axel segir áberandi hvað ferðaskipuleggjendur panti tímanlega í ár. Aðspurður segir hann að Avis fái kannski 60-70% af þeim bílum sem leigan hefði viljað fá í ár.

Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK