Þróun húsnæðisverðs lykilatriði

Erna Björg Sverrisdóttir aðal­hag­fræðingur Arion banka.
Erna Björg Sverrisdóttir aðal­hag­fræðingur Arion banka.

„Út frá síðustu verðbólgumælingu, versnandi verðbólguhorfum og stígandi verðbólguvæntingum á Seðlabankinn ekki annarra kosta völ en að grípa harkalega í bremsuna og taka stór vaxtahækkunarskref,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka, en peninganefnd Seðlabankans kemur saman næsta miðvikudag og tilkynnir vaxtaákvörðun bankans. „Verðstöðugleiki er lögbundið hlutverk Seðlabanks og því skiljanlegt að bankinn grípi til aðgerða þegar verðbólga er orðin þetta mikil.“

Eins og fram kom í dag á mbl.is er verðbólgan í landinu komin í 7,2% en spáð hafði verið 5,8% verðbólgu á fyrsta fjórðungi ársins. Greiningadeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir að verðbólgan nái hámarki í sumar og  farið í 7,7% og samkvæmt Hagsjá Landsbankans í dag er spáð 1% stýrivaxtahækkun í næstu viku þegar peninganefnd Seðlabankans kemur saman á miðvikudag og að þá fari meginvextir úr 2,75% í 3,75%.

Kemur ekki á óvart

„Þetta er meiri verðbólga en opinberar spár gerðu ráð fyrir. Það var hins vegar alveg ljóst eftir að Þjóðskrá birti vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem hækkaði um 3,1% milli mánaða í mars, að verðbólgan yrði umtalsvert meiri en þessar opinberu spár hljóðuðu upp á. Sökum þessa kom verðbólgumæling Hagstofunnar ekki jafn mikið á óvart og frávikið milli spáa og rauntalna gefur til kynna.“

  • Hverjir eru helstu áhrifavaldarnir á þessa þætti?

„Húsnæðisliðurinn er langstærsti drifkraftur verðbólgunnar hér á Íslandi, þá fyrst og fremst reiknuð húsaleiga (húsnæðisverð). Auðvitað eru áhrif af stríðinu farin að koma inn í verðbólguna hjá okkur. Við höfum séð að bensínverð hefur hækkað og verð á innfluttum vörum og aðföngum hefur hækkað. Þetta er þróun sem var hafin fyrir stríðið, það er að segja stígandi verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum, en stríðið magnaði þessi áhrif upp.”

 Húsnæðisverð, flug og matur

Erna Björg segir að bak við þessa miklu  aukningu á verðbólgunni í apríl séu þrír þættir: húsnæðisverð, flugfargjöld og matarkarfan. „Varðandi matarkörfuna þá var vitað að þar yrðu hækkanir eftir að Verðlagsnefnd búvara ákvað að hækka heildsöluverð mjólkur og mjólkurafurða. Eins koma flugfargjöldin ekki sérstaklega á óvart, þau hækka nánast alltaf í kringum páskana og nú kannski enn frekar vegna síðustu tveggja ára. Maður sér bara í tölunum yfir kortaveltu, utanlandsferðir og netleit hvað Íslendingar hafa verið orðnir þyrstir í að komast til útlanda eftir faraldurinn.”

Sveiflukenndar hækkanir á hrávörum

„Það voru komnar hækkanir fram í einhverjum hrávörum, til að mynda var olían byrjuð að hækka áður en stríðið braust út. Eftirspurn eftir vörum og þjónustu breyttist í heimsfaraldrinum, neysla heimilanna færðist úr þjónustu yfir í vörur og eftirspurnarþrýstingur hefur verið mikill. Svo voru líka ákveðnir framboðshnökrar til staðar svo  verðbólga í heiminum var farin að aukast. Síðan þegar stríðið braust út þá ýkir það og ýtir undir miklar hækkanir á hrávörum. Bæði Rússland og Úkraína eru mjög auðug af náttúruauðlindum og hrávörum. Rússland með orkugjafana, olíu og jarðgas og Úkraína, t.d. með hveiti. Stríðið og efnahagsþvinganirnar er fylgdu í kjölfarið hafa valdið miklum, sveiflukenndum hækkunum á hrávörum.“

Mismiklar hækkanir

  • Hvað þýðir þetta fyrir framtíðina?

„Ég myndi gera ráð fyrir að verðbólgan verði um og jafnvel vel yfir 7% út sumarið. Það bendir allt til þess eins og staðan er í dag. En auðvitað vitum við líka að aðstæður eru mjög fljótar að breytast í því efnahagsumhverfi og stöðu heimsmála sem við búum við. Flestar vörur eru að hækka í verði, en mismikið þó. Þetta er auðvitað eitthvað sem heimilin finna fyrir þegar þessar helstu vörur eru að hækka í verði þá hefur það áhrif á heimilisbókhaldið og útgjöld.“

  • Nú spáir Íslandsbanki 7,7% verðbólgu í sumar.

„Það er alls ekki útilokað að það verði raunin,  það ræðst svolítið mikið af því hvernig húsnæðisverð þróast á næstunni. Ef það hægir á húsnæðisverðshækkunum, mun draga úr verðbólguþrýstingi. Stóri þátturinn sem við erum að horfa til núna er hvernig þróun húsnæðisverðs verður, það er ráðandi þáttur í verðbólguþróun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK