Erfitt að koma í veg fyrir að lög yrðu brotin

Fjárlaganefnd Alþingis hélt í morgun opinn fund þar sem sala …
Fjárlaganefnd Alþingis hélt í morgun opinn fund þar sem sala ríkisins á hlutum í Íslandsbanka var rædd. Gestir fundarins voru Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður H. Helgason skrifstofustjóri og Haraldur Steinþórsson lögfræðingur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir söluráðgjafana, sem komu að sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem fór fram 22. mars, hafa verið með skýrt og einfalt hlutverk. Auðvitað hafi verið ætlast til þess að þeir myndu virða reglur um hagsmuni og ekki brjóta trúnað en að erfitt hafi verið að koma í veg fyrir að einhver myndi fara á svig við lög á hinum enda framkvæmdarinnar.

Þetta kom fram í máli hans á opnum fundi fjárlaganefndar í morgun þar sem hann sat fyrir svörum um sölu ríkisins á Íslandsbanka.

Bjarkey Olsen, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, velti því þar upp hvort söluráðgjafar Bankasýslunnar í útboðinu hafi notið einskis aðhalds.

„Maður upplifði dálítið eins og þeir væru í tómarúmi,“ sagði Bjarkey.

Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það gilda lög og reglur og samningsskuldbindingar hjá þeim [söluráðgjöfunum] og það er auðvitað ætlast til þess að menn brjóti ekki trúnað, að menn virði reglur um hagsmunaárekstra og slíka þætti. Og ef að slíkt hefur komið upp á þá held ég að það hafi verið mjög erfitt að koma í veg fyrir það fyrir fram. Það er erfitt að koma í veg fyrir það fyrirfram ef einhver ætlar sér eða fer á svig við lög á hinum enda framkvæmdarinnar,“ sagði Bjarni þegar hann svaraði spurningu hennar síðar.

Hentar kannski frekar til að selja einkaeignir

Bjarkey spurði einnig hvort þessi tilboðsaðferð hafi frekar hentað á almennum markaði frekar heldur en við sölu ríkiseigna. Velti hún því upp hvort ráðuneytið hefði átt að gera athugasemdir við þetta ferli.

„Já það er bara mjög góð spurning hvort að tilboðsfyrirkomulag sem er framkvæmt svona henti kannski betur til þess að selja einkaeignir heldur en ríkiseignir,“ svaraði Bjarni.

Það sem hann taldi að ætti að ráða úrslitum varðandi það er jafnræði, „að það sé gagnsæi og jafnræði allra.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir þetta fyrirkomulag þó vera hvað algengast sem beitt hefur verið þegar fyrirtæki sem þegar hafa verið skráð eru seld og hefur það almennt ekki þótt mjög umdeilt. 

„Ég heyri stundum sagt að það hafi ekki verið hringt í hvern einn og einasta hæfan [fjárfesti] og ég skil alveg þá spurningu af því að hún er svona jafnræðis spurning og þetta er mikið grundvallaratriði að allir standi jafnt að vígi. Á móti hefur þá Bankasýslan sagt að þetta hafi verið opinbert, að þetta hafi verið birt í Kauphöll og svo framvegis – að þetta hafi átt sér aðdraganda. Og menn hafi lagt sig fram við að vera með marga söluráðgjafa til þess að teygja sig sem víðast.“

Hefur ekki stoppað Hollendinga

Hann veltir því þó upp hvernig myndi ganga að hafa samband við alla fjárfesta í Hollandi eða í Þýskalandi ef framkvæma ætti svipað útboð á ríkiseign í þeim löndum.

„Það hefur ekki stoppað menn í Hollandi að fara þessa leið þó að það hafi ekki verið hægt að tryggja að það væri hægt að ná í alla.“

Hann segir þó þetta hafa verið vandfarin leið og enn eigi eftir að koma í ljós hvort að það hafi verið misbrestur á innri reglum eða lögum hafi verið fylgt til hvívetna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK