13,7% tekjuvöxtur hjá Origo

Sala á vöru og þjónustu nam 4.745 m.kr á fyrsta …
Sala á vöru og þjónustu nam 4.745 m.kr á fyrsta ársfjórðungi 2022 hjá Origo. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alls nam sala á vörum og þjónustu Origo 4,7 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum 2022 og endar ársfjórðungurinn 13,7% yfir veltu síðasta árs. Framlegð nam tæplega 1,3 milljörðum króna og heildarhagnaður 145 milljónum króna, sem er 18 milljónum lægra ef borið er saman við heildarhagnað á samatímabili síðasta árs.

EBITDA nam 337 milljónum króna, samanborið við 301 milljón króna á síðasta fjórðungi. 

Þá hefur eiginfjárhlutfall hækkað í 57,3% úr 56,9% í lok síðasta árs.

Velta í hugbúnaðargerð heldur áfram að vaxa en fjórðungurinn skilaði 9,4% vexti umfram sama tímabil síðasta árs. Þetta kemur fram í tilkynningu Origo um árshlutauppgjör hlutafélagsins.

Kom ágætlega út

Jón Björnsson forstjóri Origo segir fyrsta fjórðunginn á árinu koma ágætlega út fyrir félagið.

Rekstrarafkoma er góð en félagið skilar rúmlega 12,1% hærri EBITDA en á 1F 2021. Syndis, Datalab og Eldhaf koma nú inn sem nýjar einingar á 1F 2022 en voru ekki hluti af samstæðunni á síðasta ári. Þá er ánægjulegt að sjá góðan fjórðung hjá Tempo en þetta er fyrsti heili fjórðungurinn sem við sjáum sameinaðan rekstur Tempo, ALM og Roadmunk.
 
Áfram er góð eftirspurn eftir lausnum og vörum í notendabúnaði og jukust tekjur Notendabúnaðar og tengdrar þjónustu um 17,7% á fyrsta fjórðungi ársins. EBITDA helst í línu við það sem verið hefur s.l. fjórðunga eða í kringum 9%. Almennt hefur verið góð eftirspurn á fyrirtækjamarkaði. Nýjar söluleiðir og sterk netverslun hafa verið lykilatriði í þessari tekjuaukningu, þrátt fyrir tafir á vöruafhendingu og vöruskort á alþjóðavísu,“ er haft eftir forstjóranum í tilkynningu.

Áskoranir í kortunum

Þar segir jafnframt að áfram megi búast við einhverjum áskorunum á aðfangahliðinni bæði hvað varðar vöruframboð og sem og verðhækkanir. Þá hefur mikil aukning orðið hjá prentlausnum Notendalausna á fjórðungnum vegna breyttra markaðsaðstæðna. Hóf Origo í kjölfarið breyttra aðstæðna að þjónusta Richo búnað á Íslandi.

Rekstrarþjónusta og Innviðir eru áfram í umbreytingarfasa þar sem unnið er að því að breyta eldri tekjustofnum og einfalda vöruframboð og þjónustu og laga betur að þörfum viðskiptavinarins. Vegferðin gengur ágætlega og náðst hefur góður árangur í að sækja fram á mörkuðum þar sem við erum sterk. Stærstur hluti tekna starfsþáttarins koma nú frá þjónustusamningum. Tekjuvöxtur á fjórðungnum var tæplega 12,5% og EBITDA sambærileg við s.l. ár.
 
Rekstur Syndis kemur undir starfsþáttinn Rekstrarþjónusta og Innviðir. Syndis hefur stækkað og dafnað vel og er án efa sterkasta netöryggisfyrirtæki landsins. Fyrsti ársfjórðungur markast af töluverðum fjárfestingum innan Syndis en félagið setti upp starfsstöð á sviði öryggisvöktunnar í Póllandi á fjórðungnum og verða starfsmenn orðnir tíu í Póllandi innan nokkurra vikna. Félagið hefur einnig aukið fjárfestingu sína í hugbúnaðargerð innan öryggismats- og vöktunnar og er von á fyrstu betaútgáfu hugbúnaðar á þessu ári. Rekstur Syndis er hluti af vaxtarstefnu Origo en þar fara saman einn mest vaxandi geiri í upplýsingatækni og ein af grunnáherslum Origo í samfélagsmálum sem eru öryggismál.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK