162% fleiri á Keflavíkurflugvelli í ár

Frá Keflavíkurflugvelli sem var heldur tómlegur á meðan faraldurinn stóð …
Frá Keflavíkurflugvelli sem var heldur tómlegur á meðan faraldurinn stóð sem hæst. mbl.is/Hallur Már

Isavia gerir ráð fyrir að í ár muni farþegafjöldi sem fer í gegnum Keflavíkurflugvöll vera 79% af þeim fjölda sem fór um völlinn fyrir kórónuveirufaraldur, árið 2019, en 162% fleiri en í fyrra. Spáir Isavia því að 5,7 milljónir farþega fari um völlinn í ár. 

„Isavia hefur ekki gefið út farþegaspá frá því fyrir Covid-19 vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkt hefur,“ er haft eftir Grétari Má Garðarssyni, forstöðumanni flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia, í tilkynningu frá félaginu. 

„Endurheimtin er hraðari en við bjuggumst við fyrr á þessu ári. Samkvæmt farþegaforsendum sem við gerðum í byrjun febrúar var útlit fyrir að heildarfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll yrði tæpar 4,6 milljónir. Nú hefur sú tala hækkað um ríflega eina milljón.“

Isavia gerir ráð fyrir því að fjöldi skiptifarþega nærri tvöfaldist í maí og aukist jafnt og þétt fram á  haust.

„Tvö félög bjóða nú upp á tengiflug milli Evrópu og Norður-Ameríku um Keflavíkurflugvöll.  Auk Icelandair hóf Play flug vestur um haf í apríl. Farþegaspáin gerir ráð fyrir að tengifarþegar verði tæplega 1,5 milljónir fyrir allt árið 2022 en þeir voru rétt rúmar 2 milljónir 2019 og 350 þúsund í fyrra,“ segir í tilkynningunni frá Isavia. 

Grétar Már segir þau hjá Isavia bjartsýn á framtíðina.
Grétar Már segir þau hjá Isavia bjartsýn á framtíðina.

Heimurinn að opnast

Munu 24 flugfélög fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli í sumar en þau voru 25 árið 2019. Í sumar eru áfangastaðirnir 75 en þeir voru 80 sumarið 2019. 

„Heimurinn er að opnast eftir heimsfaraldurinn og ferðaþjónustan að vakna eftir erfitt tímabil,“ er haft eftir Grétari.

„Við hjá Isavia erum bjartsýn fyrir sumarið og á framtíðina. Árið 2022 endurheimtum við ferðagleðina. Þetta verður líka eitt mesta framkvæmdaár í sögu Keflavíkurflugvallar. Við erum að stækka og bæta flugstöðina til að geta enn betur tekið á móti ferðafólki til framtíðar.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK