„Ísland stækkar við nýja flugleið“

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair.

Þann 2. júní næstkomandi fer Niceair í fyrsta millilandaflugið frá Akureyri til Kaupmannahafnar og verða farnar fimm flugferðir í viku í sumar, tvær til Kaupmannahafnar, tvær til London og ein ferð til Tenerife. 

„Síðan bætast við tvær ferðir vikulega í vetur og við fljúgum til Manchester líka, en vetrarmarkaðurinn í Bretlandi er einn okkar helsti markaður,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair, en bætir við að heimamenn séu mikið að bóka flug til Tenerife. Að hans mati er það alls ekki bjartsýni að halda úti einni til tveimur þotum á Akureyri, eins og lagt er upp með.

Hann segir Akureyrarflugvöll þó illa ráða við aukna flugumferð eins og staðan er núna, en búið sé að samþykkja stækkun. Viðbúið sé því að Niceair þurfi að búa við þröngan kost fyrstu mánuðina.

Þorvaldur hefur sjálfur verið að fljúga frá unga aldri en segir það eiga eftir að koma í ljós hvort hann fljúgi sjálfur. „Það er i mörg horn að líta fyrst um sinn og ekki víst það gefist tími til tegundarréttinda á vélina, enda í forgangi að selja sæti,“ segir hann hress og greinilegt að mikill hugur er í Akureyringum.

Miklar rannsóknir fyrir jómfrúarflugið

„Það hafa lengi verið hugmyndir um þetta og rík krafa frá samfélaginu hérna fyrir norðan að opna betri leið erlendis frá og til Norður- og Austurlands. Við fórum af stað nokkur hópur með rannsóknir og studdum okkur líka við rannsóknir sem áður höfðu verið unnar og komumst að því í stuttu máli að það væri heilmikið vit í þessu plani. Það var svo fyrir þremur árum að við fórum að taka þetta virkilega föstum tökum og fórum að hugsa hvernig best væri að útfæra þetta. Núna erum við búin að leigja vél og vorum með flugfreyjunámskeið og erum búin að undirbúa allt undir það að taka flugið 2. júní til Kaupmannahafnar. Fyrir utan áætlunarflug Norlandair til Grænlands, verður þetta í fyrsta skipti sem reglubundið millilandaflug verður frá öðrum flugvelli á Íslandi heldur en Keflavík.“

Höfuðstaður norðursins Akureyri fær nú beint flug úr bænum til …
Höfuðstaður norðursins Akureyri fær nú beint flug úr bænum til umheimsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill áhugi fyrir þessu „nýja Íslandi“

Þorvaldur segir að áhuginn frá stærstu viðskiptavinum þeirra í Bretlandi, Sviss, Þýskalandi og á Norðurlöndunum, sé mjög mikill. „Okkur hefur verið sagt að nú sé loksins kominn nýr áfangastaður á Íslandi, sem hægt sé að selja ferðir til. Það er í rauninni búið að vera að bjóða sömu vöruna á Íslandi í 10 til 15 ár, svo menn fögnuðu því að það kæmu fleiri handhægir möguleikar með beinu flugi í annan landshluta. Ísland stækkar við nýja flugleið.“

Þeir hafi fengið að heyra frá ferðaskrifstofum erlendis að helsti þröskuldurinn fyrir sölu ferða á Norður- og Austurland væri erfitt aðgengi.

70% endurkomufarþega vilja  beint út á land

„Það er bara yfirleitt þannig að fólk er ekkert að fara mikið meira en svona 150 kílómetra frá innkomuflugvelli, sem er Keflavík, og þá sérðu að þeir eru mest á Suðurlandi. Með beinu flugi til Akureyrar opnast alveg nýir möguleikar og ókannað og spennandi svæði fyrir stóran hluta ferðamanna, sem geta þá komist beint og þurfa ekki að eyða bæði tíma og peningum að koma sér norður. Síðan opnast líka miklir möguleikar fyrir heimamenn að komast út án þess að þurfa tvo auka sólarhringa til að fara suður til að komast erlendis og það sparar mikið fé. Það segir sig sjálft að ef þú þarft að ferðast í 6 til 9 klukkustundir til að komast í millilandaflug, þá ferðastu minna. Þú skreppur þá ekki í helgarferð nema það sé fimm daga ferð.“

Þorvaldur segir að flestir sem spurðir séu í Leifsstöð hvort þeir vilji koma aftur til Íslands svari því játandi og 70% þeirra segist vilja fara beint út á land í næsta skipti. „Endurkomuhópur er sá hópur sem við sjáum sem okkar markhóp,“ segir hann.

Niceair fer í jómfrúarflugið 2. júní nk.
Niceair fer í jómfrúarflugið 2. júní nk.

Við eigum alveg að geta þetta

„Hvað varðar síðan farþegafjölda og traffíkina frá Íslandi þá er upptökusvæðið okkar hérna fyrir norðan svipað í mannfjölda og Færeyjar, og Færeyingar gera út fjórar þotur og þeir eru með mun minna þróaðan ferðamannaiðnað en Íslendingar. Okkur finnst þess vegna ekki nein gríðarleg bjartsýni að geta haldið úti einni til tveimur þotum hér,“ segir hann.

„Það sem er líka svo spennandi er að þetta getur gjörbreytt öllu atvinnulífi hérna fyrir norðan og austan, því með aukinni traffík koma fleiri störf og þörf fyrir meiri þjónustu á svæðinu.“

Getur flugvöllurinn fyrir norðan alveg annað þessu?

„Hann getur það illa, en það er sem betur fer búið að samþykkja stækkun og sú vinna er í gangi. Við munum þurfa að búa við þröngan kost fyrstu tólf mánuðina en við erum öll samstíga hérna við að láta þetta ganga upp.

Það er stemmning og mikill meðbyr með þessu verkefni og eins og við auglýsum þá fer hver að verða síðastur að keyra til Keflavíkur, við tökum flugið 2. júní,“ segir Þorvaldur eldhress.

Ekki bíða í önnur hundrað ár

Þorvaldur segir að það sé gaman að rifja upp söguna í tengslum við samskipti við umheiminn.  

„Það var sett á fót félag á Akureyri 1870 sem hlaut nafnið Gránufélagið. Það var stofnað af framfarasinnuðum bændum og kaupmönnum hérna á Norðurlandi í þeim tilgangi að koma afurðum sínum, fiski, salti og ullarvörum beint á markað í Bretlandi og Danmörku. Þeir keyptu franska duggu sem hafði dagað hér uppi og fóru að gera hana út í millilandasiglingar. Þeir sigldu út með afurðir og komu heim með byggingavörur, áfengi og tóbak og vörur sem bændur vildu fá. Hugsunin var að komast undan dönsku einokuninni. Þessu félagi óx fiskur um hrygg og var komið með nokkur skip um aldamótin þegar þeir hættu starfsemi.

En Gránufélagið var stofnað 43 árum á undan Eimskipafélaginu, sem er oftast nefnt sem fyrsta félagið í millilandasiglingum á Íslandi sem er ekki rétt. Gránufélagið var alveg risa fyrirtæki á þess tíma mælikvarða. Það er svo gaman þegar ég hugsa um það að það hafa í rauninni ekki verið reglulegar millilandasamgöngur við Norðurland síðan þá og ég vil ekki láta önnur hundrað ár líða áður en það gerist aftur.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK